Rannsókn sem miðar að þróun þekkingar í faglegu starfi með börnum hefur hlotið styrk úr Sigrúnarsjóði við Háskóla Íslands en úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn föstudaginn 27. maí sl. Styrkhafi er Hervör Alma Árnadóttir, lektor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrksins nemur 500.000 krónum.
Á undanförnum árum hafa málefni barna og fjölskyldna þeirra verið töluvert til umfjöllunar í íslensku samfélagi. Í því sambandi hefur verið rætt um hag barna og þá sýn að börn séu virkir aðilar og gerendur í eigin lífi. Skortur hefur verið á rannsóknum þar sem börn tjá sig um líf sitt og aðstæður.
Styrkþeginn, Hervör Alma Árnadóttir félagsráðgjafi, hefur trausta reynslu af vettvangi á sviði velferðar- og barnaverndarmála. Hún er nú lektor við Félagsráðgjafardeild og komin áleiðis í doktorsnámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hervör Alma hefur kennt námskeið um aðstæður íslenskra barna um árabil og unnið að rannsóknum þar að lútandi í samstarfi við leiðbeinanda sinn í doktorsnáminu, dr. Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor, sem er meðal brautryðjenda á Íslandi í rannsóknum um þátttöku barna. Hervör Alma hefur sérstakan áhuga á gildi sannreyndrar þekkingar í meðferð og þjónustu á sviði félagsráðgjafar og tengist sú áhersla í verkefninu.
Fagleg umræða, fræðaþróun og viðhorfsbreyting hefur þrýst á fræðimenn og rannsakendur að fá börn til beinnar þátttöku í rannsóknum um málefni sem snerta velferð þeirra. Þegar staðið er faglega að þátttöku barna getur hún verið valdeflandi fyrir þau um leið og hún skapar aukna vitneskju og mikilvæga innsýn í líf barna sem flókið er að fá á annan hátt.
Doktorsverkefni Ölmu beinist þannig að rétti barna til beinnar þátttöku í rannsóknum og á hæfni þeirra til að fjalla um reynslu sína og viðhorf. Markmiðið er að afla upplýsinga um reynslu og viðhorf barna, fagmanna og rannsakenda til þátttöku 6-18 ára barna í rannsóknum. Tilgangurinn er að skoða sérstaklega ábyrgð rannsakenda á að auka þátt barna í rannsókum. Jafnframt að vekja umræðu um áhrifavald og ábyrgð fagmanna á því að annars vegar styðja við þátttöku og hins vegar að hindra tækifæri barna til þess að hafa áhrif á eigið líf og aðstæður.
Þess er vænst að niðurstöður geti nýst til að auka þekkingu á því flókna og viðkvæma ferli sem rannsakendur og fagfólk mætir við undirbúning og framkvæmd rannsókna með beinni þátttöku barna. Niðurstöður munu einnig eiga þátt í að efla samtal á milli rannsakenda og fagfólks á vettvangi með það að leiðarljósi að auka traust og skilning þeirra á störfum hvor annars, börnum til hagsældar og bernskufræðum til framþróunar. Með þessu má efla gæði faglegs starfs með börnum og styrkja stefnumótun á sviði félagsráðgjafar.
Fyrsta greinin í verkefninu Hliðvörður – hvert er hlutverk þitt? hefur verið birt í tímaritinu Netla- Veftímarit um uppeldi og menntun. Sá hluti byggist á eigindlegri rannsókn þar sem tekin voru rýnihópaviðtöl við rannsakendur sem höfðu lagt stund á rannsóknir með börnum. Nú er unnið að viðtölum við stjórnendur og fagmenn opinberra stofnana sem sinna hlutverki hliðvarða. Áætlað er að verkefninu ljúki 2018.
Sigrúnarsjóð stofnaði Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, en hún er einnig stofnandi og stjórnarformaður Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands. Sigrún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar menntunar, rannsókna og fræða í félagssráðgjöf. Meginmarkmið og tilgangur rannsóknasjóðsins er að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf sem snerta hagsmuni barna- og fjölskyldna.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja ásamt formanni þær Lára Björnsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, og Ragnhildur Geirsdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum. Varamenn eru Ingibjörg Broddadóttir félagsráðgjafi og Heiðrún Jónsdóttir lögfræðingur.
Sem fyrr segir er þetta í fyrsta sinn sem styrkur er veittur úr sjóðnum en það var gert í tengslum við 5 ára afmæli Sigrúnarsjóðs og tíu ára afmælisþing Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd sem haldið var á vegum Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Nánari upplýsingar um úthlutunina, sjóðinn og aðra sjóði í vörslu styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina, helgab@hi.is, sími 899 8719.