Háskóli Íslands

Reglur Tækjakaupasjóðs

REGLUR FYRIR HÁSKÓLA ÍSLANDS

77. gr.  Tækjakaupasjóður Háskóla Íslands

Tilgangur Tækjakaupasjóðs Háskóla Íslands er að efla rannsóknir og kennslu við háskólann. Rektor skipar þriggja manna stjórn Tækjakaupasjóðs samkvæmt tilnefningu vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar.

[Fjárveiting til sjóðsins er ákveðin árlega af háskólaráði.]1

[Stjórn sjóðsins úthlutar sérhæfðu tækjakaupafé á grundvelli umsókna og forgangsröðunar fræðasviða.]1

Tæki sem keypt eru fyrir styrk úr Tækjakaupasjóði eru eign Háskóla Íslands.

Sviðsstjóri [vísinda- og nýsköpunarsviðs]2 skal gefa háskólaráði skýrslu um úthlutun tækjakaupafjár einu sinni á ári.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 830/2015.
2Breytt með 1. gr. rgl. nr. 74/2013.

 -------------------------------------------------------------------------------------
Vinnureglur

  1. Kennarar og sérfræðingar Háskóla Íslands og stofnana hans, sem að jafnaði hafa verið ráðnir á grundvelli hæfnisdóms, geta sótt um stuðning sjóðsins.

  2. Tækjakaupasjóður styrkir kaup á sérhæfðum tækjum til kennslu og rannsókna. Sjóðurinn styrkir ekki kaup á tækjum sem teljast til almenns reksturs eða skrifstofubúnaðar, svo sem venjulegar borð-, og fartölvur. Við mat á umsóknum er einkum horft til; forgangsröðun fræðasviðs, aðstöðu umsækjanda, rannsóknaverkefna sem umsækjandi vinnur að, hvort tækið nýtist öðrum á viðkomandi sviði og til þess hvort um mótframlag er að ræða.

  3. Umsóknarferli og úthlutun: Sækja skal um til vísinda- og nýsköpunarsviðs og er umsóknarfrestur til 15. nóvember ár hvert. Vísinda- og nýsköpunarsvið sendir umsóknir til forgangsröðunar viðkomandi fræðasviðs. Fræðasvið skilar umsóknum til vísinda- og nýsköpunarsviðs fyrir 15. desember. Úthlutun skal lokið í febrúarmánuði.

Samþykktar á fundi háskólaráðs 3.9.2015

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is