Tæknileg framþróun og nýsköpun á sviði gervilima getur aukið hreyfanleika og lífsgæði einstaklinga sem misst hafa útlim eða hafa meðfædd frávik á útlimum. Rannsóknarsjóður Össurar og Ottobock var stofnsettur við Háskóla Íslands í því skyni að efla rannsóknir á sviðinu. Háskóli Íslands ásamt Össuri hf. og Ottobock, sem eru tveir helstu frumkvöðlar í nýsköpun gervilima, hafa nú sameinað krafta sína í leit að rannsakendum víðs vegar um heiminn til að rannsaka og sannprófa gagnsemi háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum.
Sjóðurinn býður einstakt tækifæri til þátttöku í vísindarannsóknum á sviði gervilima, en styrkirnir geta numið frá 150.000 til 500.000bandaríkjadala og getur verkefnistími numið allt að þremur árum.
Umsóknarfrestur er til ársloka 2022.
Auglýsing eftir umsóknum
Krafa er gerð um að rannsóknarspurningar séu beintengdar notagildi háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Hér er ekki einvörðungu átt við tæknilegar úrlausnir, en spurningarnar geta einnig beinst að klínískum aðferðum eða jafnvel verið af sálfræði- eða siðfræðilegum toga. Enn fremur skulu rannsóknirnar ganga út á að samræma betur tæknilegar lausnir og notkun gervilima við athafnir daglegs lífs. Heimilt er að nýta sjóðinn sem viðbótarfjármögnun við rannsóknaverkefni sem hafa hlotið styrk eftir öðrum leiðum, til að mynda frá DARPA Haptics Program eða rannsóknaáætlunum innan Evrópu. Þar með er hægt að byggja rannsóknaverkefni á niðurstöðum sem þegar hafa fengist úr slíkum verkefnum. Alþjóðlegi samkeppnissjóðurinn er opinn fyrir umsóknir hagnýtra rannsóknaverkefna þar sem áhersla er lögð á:
• Sannprófanir á virkni taugastjórnunar (s.s. tauga- eða vöðvastýringar) í klínískum rannsóknum með eða án miðlunar skynupplýsinga (sensory feedback)
• Sannprófanir á jafn- eða gagnsemi nýrra stýriaðferða með gervilimum sem eru nú þegar aðgengilegir
• Framþróun á búnaði eða íhlutum til stýringar á gervilimum sem þegar hafa verið sannreyndir með klínískum prófunum
Formsatriði
• Hver getur sótt um? Rannsakendur eða rannsóknateymi með viðeigandi rannsóknareynslu. Hér er átt við námsmenn sem stunda rannsóknir við háskóla, menntastofnanir, klínísk teymi, þróunaraðila og fyrirtæki víðs vegar um heim
• Styrkupphæð: Frá 150.000 til 500.000 bandaríkjadala
• Viðurkenndur kostnaður: Laun, ferðalög, tækjakaup ásamt samrekstri og aðstöðu (leggjast 25% sjálfkrafa ofan á beinan kostnað)
• Styrktímabil: Að hámarki þrjú ár
• Umsóknafrestur: Fyrir 31. desember 2022
• Umsókn skilist til: sjodir@hi.is sem viðhengi. Sjá hlekk á umsóknareyðublað hér fyrir neðan.
• Næstu skref: Verði verkefni þitt fyrir valinu í næstu lotu umsóknarferlisins verður þér boðið að kynna það fyrir nefnd sjóðsins í lok mars 2023. Áætlað er að styrktímabilið hefjist 1. júlí 2023.
• Frekari upplýsingar um sjóðinn má finna hér:
Umsóknareyðublað (word)
Bakgrunnur
Markmið Rannsóknarsjóðs Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands er að fjármagna grunn- og hagnýt rannsóknaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Sjóðurinn var stofnsettur við Háskóla Íslands með fjárframlögum frá Össuri og Ottobock sem eru tveir helstu frumkvöðlar heims á sviði gervilima og stoðbúnaðar. Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og hefur höfuðstöðvar í Reykjavík. Ottobock var stofnað í Þýskalandi árið 1919 og hefur höfuðstöðvar í Duderstadt. Með stofnun sjóðsins vilja fyrirtækin efla þróun á hágæða tæknibúnaði sem eykur hreyfanleika og lífsgæði einstaklinga.