Félagsvísindi
Þrjú verkefni á sviði félagsvísinda hljóta styrk að þessu sinni. Styrkhafar eru Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, Kristín Björnsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Rannsókn Kolbrúnar beinist að þróun frístundaheimila, stöðu þeirra, eðli og hlutverki. Leiðbeinandi Kolbrúnar er Jón Torfi Jónasson, prófessor við félagsvísindadeild. Rannsókn Kristínar, sem er á sviði fötlunarfræða, felst í því að skoða samspil menningar og samfélagslegrar þátttöku í lífi ungs fólks með þroskahömlun, með áherslu á kyngervi og sjálfsskilning. Leiðbeinandi er Rannveig Traustadóttir, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Viðfangsefni Þorgerðar er jafnréttisumræðan. Í rannsókninni verður spurt hvaða möguleikar og tækifæri opnast með „útvíkkun jafnréttishugtaksins“, þ.e. með því að láta jafnréttisstarf ekki aðeins ná yfir kynjaumræðuna heildur einnig til minnihlutahópa á borð við samkynhneigða, fatlaða o.fl., og jafnframt hvaða hindranir blasa við. Leiðbeinandi er Þorgerður Einarsdóttir, dósent við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Heilbrigðisvísindi
Í heilbrigðisvísindum eru veittir styrkir til fjögurra verkefna. Þá hljóta Berglind Eva Benediktsdóttir, Erna Sif Arnardóttir, Margrét Bessadóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir. Markmið verkefnis Berglindar Evu er að þróa ný örefni sem miða að því að auðvelda lyfjagjöf um lungu og án þess að hafa neikvæð áhrif á sjálfar frumurnar. Vonast er til að verkefnið muni stuðla að öruggari og þægilegri gjöf á líftæknilyfjum með innöndun. Verkefni Ernu Sifjar felst í rannsóknum á truflun á svefngæðum. Rannsakaðir verða einstaklingar með ómeðhöndlaðan kæfisvefn og heilbrigt fólk sem haldið er vakandi lengur en í sólarhring. Vonast er til að skilja betur þær breytingar sem verða á líkamanum vegna kæfisvefns og svefnsviptingar, hvað getur spáð fyrir um kæfisvefn og svefnleysi og hvers vegna sumir þola svefnleysi vel og aðrir illa. Leiðbeinendur eru Þórarinn Gíslason, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, og Allan I. Pack, prófessor við Háskólann í Pennsylvaníu. Rannsókn Margrétar kallast „Áhrif þriggja fléttuefna á boðflutning krabbameinsfrumna“. Markmiðið er að einangra hrein og vel skilgreind fléttuefni og kanna hvort þau séu vænlegir lyfjasprotar með því að rannsaka áhrif þeirra á boðferla krabbameinsfrumna. Leiðbeinendur eru Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, og Sesselja Ómarsdóttir, lektor í lyfja- og efnafræði náttúruefna við læknadeild Háskóla Íslands. Ragnhildur rannsakar áhrif snjóflóðanna á Íslandi árið 1995 þar sem 34 einstaklingar létust og áhrif Tsunami-flóðbylgjunnar 2004. Kannað verður hvort eftirlifendur snjóflóðanna og sænskir eftirlifendur Tsunami-flóðbylgjunnar hafi aukna hættu á langtímaheilsufarsafleiðingum. Leiðbeinandi er Unnur Anna Valdimarsdóttir, dósent við læknadeild Háskóla Íslands, forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum.
Hugvísindi
Í ár hljóta þrjár doktorsrannsóknir í hugvísindum styrki úr Háskólasjóði Eimskips. Styrkhafar eru Gabriel Malenfant, Jón Á. Kalmansson og Kristján Mímisson. Gabriel hlýtur styrk til að rannsaka mikilvægi „villts“ landslags og ósnortinna víðerna fyrir menningu og sjálfsmynd þjóða. Einnig mun hann athuga hvaða áhrif stórvægilegar breytingar á villtri náttúru geta haft á gildismat og sjálfsmynd þjóða. Leiðbeinendur Gabriels eru Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki við hugvísindadeild Háskóla Íslands og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Verkefni Jóns er á sviði heimspeki. Leitast verður við að gera grein fyrir hugmynd um siðferðileg takmörk sem byggist öðru fremur á viðurkenningu á grunnstaðreyndum mannlegs lífs, t.d. þeirri að menn og aðrar lífverur þurfa að deila saman lífi hér á jörðinni. Sýnt verður fram á hvernig slík viðurkenning er mikilvæg forsenda þess að skoða heiminn frá víðara sjónarhorni en eiginhagsmunum og athugað hvernig þessi hugsun birtist í hugtakinu ‘sjálfbær þróun’. Leiðbeinandi er Róbert H. Haraldsson, dósent við heimspekideild Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn Kristjáns felst í rannsókn á kotbóndanum Þorkeli sem á miðri 17. öld byggði bæinn Búðarárbakka í Hrunamannahreppi. Rannsóknin tengist yfirstandandi fornleifauppgreftri Búðarár. Við rannsóknina er kenningum um einstaklinginn í fornleifafræðilegum efnivið beitt til að skapa ævisögubrot kotbóndans. Gavin Lucas, lektor í fornleifafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands, er leiðbeinandi Kristjáns.
Raunvísindi
Fjögur verkefni á sviði raunvísinda hljóta styrki að þessu sinni. Styrkhafar eru Bergrún Arna Óladóttir, Björn Oddsson, Helena Dögg Flosadóttir og Tobias Zingg. Verkefni Bergrúnar Örnu felst í því að rekja gossögu fjögurra eldstöðvakerfa undir Vatnajökli frá ísaldarlokum ásamt því að kanna þróun kvikukerfa undir Vatnajökli frá lokum ísaldar. Verkefnið mun auka þekkingu á eldvirkni eldstöðvanna og leggja grunn að traustum gagnabanka um basísk gjóskulög. Leiðbeinendur eru Guðrún Larsen og Olgeir Sigmarsson, sem bæði eru fræðimenn við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Björn rannsakar hvernig tvístrun kviku í sprengigosum í jökli hefur áhrif á ísbráðnun og hvernig hagnýta skal þá möguleika sem varmamælingar á bráðnun jökulíss geta gefið um orkustrauma í eldgosum. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, er leiðbeinandi. Helga Dögg rannsakar háorkugeislun en ef háorkugeislun á sér stað í lífveru getur hún leitt til efnahvarfa sem valda tengjarofum í erfðaefni eða öðrum lífsnauðsynlegum efnasamböndum. Langtímamarkmið verkefnisins er að það megi nýtast til bætts verklags í meðferð geislavirkra efna og bættrar geislameðferðar til lækninga. Leiðbeinandi er Oddur Ingólfsson, prófessor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Verkefni Tobiasar er á sviði strengjafræði þar sem mikil áhersla er lögð á að rannsaka þjöppunarlausnir. Í verkefninu verða kannaðar lausnir þar sem þjöppunarrúmið er alhæfð tvinnvíðátta og leitast við að reikna út helstu kennistærðir öreindafræði í tilsvarandi fjórvíðu tímarúmi. Jafnframt verður alhæfð tvinnrúmfræði notuð til að kanna ákveðna eiginleika svarthola. Leiðbeinandi er Lárus Thorlacius, prófessor og deildarforseti raunvísindadeildar Háskóla Íslands.