Háskóli Íslands

Styrkhafar 2007

Félagsvísindi
Þrjú verkefni á sviði félagsvísinda hljóta styrk að þessu sinni. Styrkhafar eru Gyða Margrét Pétursdóttir, Sigríður Sjöfn Ágústsdóttir og Úlfar Hauksson. Rannsókn Gyðu Margrétar nefnst Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð. Í umfangsmikilli rannsókn hennar eru könnuð áhrif alþjóðavæðingar og harðnandi samkeppni á vinnumenningu og félagslega merkingu vinnunnar. Leiðbeinandi hennar er Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands. Rannsókn Sigríðar Sjafnar Ágústsdóttur fjallar um áhrif tjáningarskrifa á þá sem greinst hafa með blöðruhálskirtilskrabbamein á Íslandi. Leiðbeinendur eru Jakob Smári, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, og Heiðdís B. Valdimarsdóttir, prófessor við Mount Sinai School of Medicine. Úlfar rannsakar áhrif bindandi ákvarðana alþjóðlegra stofnana á stöðu og merkingu lýðræðis, fullveldis og þjóðríkis á 21. öld, með hliðsjón af vinnumarkaðslöggjöf Evrópusambandsins. Leiðbeinandi er Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Heilbrigðisvísindasvið
Í heilbrigðisvísindum eru veittir styrkir til fjögurra verkefna. Þá hljóta Christian Praetorius, Phatsawee Jansook, Þórunn Ásta Ólafsdóttir og Skarphéðinn Halldórsson. Verkefni Christians – Markgen stjórnpróteinsins Mitf í litfrumum og sortuæxlum – miðar að því að greina hlutverk og starfsemi stjórnpróteinsins Mitf í þroskun litfrumna og myndun sortuæxla. Verður notuð nýleg aðferð, mótefnafelling á örflögu, til að kortleggja öll markgen Mitf-stjórnpróteinsins í erfðamengi litfrumna og sortuæxla til að reyna að finna öll gen sem Mitf stjórnar tjáningu á, í þessum frumum. Leiðbeinandi er Eiríkur Steingrímsson, prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands. Rannsókn Phatsawees snýr að þróun nanótækni til lyfjagjafar í augu en viðteknar lyfjameðferðir við sjúkdómum í bakhluta auga eru áhættusamar, valda aukaverkunum og oft og tíðum árangurlitlar, þar sem erfitt er að ná fram læknisfræðilegri þéttni lyfs í bakhluta augans. Markmiðið er að ráða bót á erfiðleikum sem fylgja staðbundinni lyfjagjöf í augu og auka árangur af lyfjagjöfinni. Leiðbeinandi er Þorsteinn Loftsson prófessor í eðlislyfjafræði við Háskóla Íslands. Þórunn Ásta hlýtur styrk til að rannsaka ónæmissvör nýburamúsa við pneumókokka- og inflúensubólusetningum. Niðurstöðum verkefnisins er ætlað að leiða í ljós nýjar blöndur bóluefna og ónæmisglæða sem verndað geta nýburamýs gegn alvarlegum sýkingum og virkni þeirra á óþroskað ónæmiskerfi nýbura verður kortlögð. Frekari þróun slíkra bóluefna til notkunar í mönnum gæti leitt til mikils hagræns ávinnings og bættrar heilsu ungbarna. Leiðbeinandi er Ingileif Jónsdóttir, dósent í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þá mun Skarphéðinn Halldórsson rannsaka náttúrulegar varnir lungnaþekju. Markmið rannsóknar Skarphéðins er að skilgreina ónæmissvörun í þekju lungna, sérstaklega viðbrögð við sýkingum og lyfjum og tengir verkefnið saman grunnvísindi og klíníska læknisfræði. Leitað er leiða til þess að efla varnir lungnaþekju gegn sýkingum sem er sérlega mikilvægt á tímum alþjóðlegra faraldra, fjölónæmra sýkla og hárrar tíðni lungnakrabbameins. Leiðbeinandi er Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor í frumulíffræði við Háskóla Íslands.

Verkfræði og raunvísindi
Fimm verkefni á sviði verkfræði og raunvísinda hljóta styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins að þessu sinni. Styrkhafar eru Ása Guðrún Kristjánsdóttir, Marie Keiding, Olivier Moschetta, Sigríður Guðmundsdóttir og Sigurður Örn Stefánsson. Ása Guðrún rannsakar næringu skólabarna og þætti sem ákvarða hollt mataræði þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að stuðla að góðum og hollum matarvenjum barna í samvinnu forelda og starfsfólks grunnskóla, með nýrri þekkingu um hvernig flétta megi hollar lífsvenjur inn í daglegt líf barna. Leiðbeinandi er Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Rannsókn Marie Keiding snýr að aflögun, jarðskjálftavirkni og spennubreytingum á flekaskilunum á Reykjanesskaga. Nýbreytnin í verkefni Marie felst í að samtúlka gögn úr landmælingum og jarðskjálftamælingum og er vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar megi meðal annars nýta við mat á jarðskjálftavá á Reykjanesskaga. Rannsókn Oliviers Moschetta fjallar um fjöltindalausnir í ólínulegum hlutafleiðujöfnum, en um þær gildir yfirleitt ekki hið svokallaða samlagningarlögmál, heldur tvítinda- eða fjöltindalausn að gefnum ákveðnum skilyrðum. Ætlunin er að varpa ljósi á þetta fyrirbæri með því að beita fellagreiningu. Leiðbeinandi er Robert J. Magnus, prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands. Rannsókn Sigríðar Guðmundsdóttur snýr að kennilegum rannsóknum í rafefnafræðilegum ferlum. Rafefnafræðin er mikilvægt svið innan efnafræðinnar sem fjallar um hvernig efnaorka breytist í raforku og raforka í efnaorku. Hún hefur sérstaka hagnýta þýðingu í ljósi þess að raforka verður sífellt algengara orkuform á kostnað olíu. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á gangi og hraða efnahvarfa í efnarafölum svo að hægt sé að auka nýtni efnarafala. Leiðbeinandi er Hannes Jónsson, prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands. Rannsókn Sigurðar Arnar Stefánssonar nefnist Þyngdarfræði í óvíxlnu rúmi. Hún snýr að helsta óleysta verkefninu í kennilegri eðlisfræði samtímans, að kanna hvernig skammtafræðin og almenna afstæðiskenningin geta samrýmst lýsingu á gerð tímarúmsins á örstuttum lengdarskölum. Leiðbeinandi er Þórður Jónsson, vísindamaður á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hugvísindi
Í ár hljóta tvær doktorsrannsóknir í hugvísindum styrki úr Háskólasjóði Eimskips. Styrkhafar eru Aleksander Wereszcynski og Theódóra A. Torfadóttir. Aleksander Wereszcynski hlýtur styrk til að rannsaka afleiðingarformgerð í íslensku. Í sögulegum hluta rannsóknarinnar verður sjónum einkum beint að uppruna og þróun „núliðinnar tíðar“ í íslensku og í samtímalega hlutanum verður meðal annars athuguð notkun núliðinnar tíðar og orðasambandsins „vera búinn að“ með nafnhætti í nútímamáli, einnig í máli innflytjenda. Leiðbeinandi er Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Þá hlýtur Theódóra A. Torfadóttir styrk til að rannsaka framvinduhorf í íslensku, eðli og þróun. Markmið rannsóknarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi er markmiðið að kanna betur samspil framvinduhorfs og merkingar sagna. Í annan stað er ætlunin að skoða hvað breytingar á þessu samspili segja okkur um eðli framvinduhorfsins, einnig í samanburði við önnur tungumál. Í þriðja lagi er markmiðið að nýta rannsóknina til að varpa ljósi á eðli málbreytinga og hvernig þær breiðast út. Leiðbeinandi er Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslensku nútímamáli við Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is