Vinnureglur kennslumálanefndar háskólaráðs
um úthlutun úr Kennslumálasjóði Háskóla Íslands
Staðfestar á fundi háskólaráðs 12. janúar 2012
I. Almenn ákvæði
- Tilgangur Kennslumálasjóðs Háskóla Íslands er að stuðla að nýmælum í kennsluháttum og endurbótum á kennslu við háskólann.
- Styrkir eru veittir til einstakra fræðasviða, háskóladeilda, námsbrauta eða hópa kennara er þróa vilja kennsluhætti, gæðamat á kennslu eða auka færni kennara í starfi.
- Háskólaráð ráðstafar til kennslumálasjóðs ákveðinni fjárhæð á hverju ári, sbr. 2. mgr. 76. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, og felur kennslumálanefnd að úthluta styrkjum samkvæmt þessum vinnureglum. Kennslumálanefnd ákvarðar hámarksupphæð einstakra styrkja. Kennslumálanefnd er jafnframt heimilt að veita allt að þriðjungi ráðstöfunarfjár til afmarkaðra og tilfallandi verkefna sem hún metur að stuðli að bættri kennslu.
- Kennslumálanefnd er heimilt að auglýsa styrki til skilgreindra verkefna er tengjast Stefnu HÍ hverju sinni. Einnig er heimilt að auglýsa styrki án slíkrar afmörkunar.
- Auglýst skal eftir styrkumsóknum vegna næsta háskólaárs í janúarmánuði ár hvert með umsóknarfresti til 1. mars. Í auglýsingu komi fram hvernig að umsókn skuli staðið og hvaða gagna sé krafist af umsækjendum.
- Styrkir eru m.a. veittir til veigamikilla verkefna er lúta að þróun kennsluhátta, mats á kennslu eða almennu gæðakerfi einstakra fræðasviða eða háskóladeilda. Heimilt er einnig að veita styrki til að auka kennslufærni kennara. Jafnan skal við það miðað að verkefni sem styrkt eru geti nýst öðrum fræðasviðum eða deildum.
- Styrkir eru hvorki veittir vegna kostnaðar við reglubundinn rekstur á kennslu, né vinnu við endurskipulagningu eða reglubundið mat á kennslu á fræðasviði eða í deild.
- Þeir sem hljóta styrk úr Kennslumálasjóði skulu láta kennslumálanefnd í té lokaskýrslu og skal nefndin tryggja að verkefnið fái góða kynningu innan Háskólans.
- Styrkjum er m.a. ætlað að greiða fyrir eigin vinnu kennara (dagvinnu eða yfirvinnu), vinnu aðstoðarmanna, faglega ráðgjöf og annan útlagðan kostnað.
II. Frágangur umsókna og meðferð
- Kennslumálanefnd gefur út eyðublöð sem ber að nota þegar umsókn er samin.
- Umsóknum skal fylgja lýsing á fyrirhuguðu verkefni ásamt sundurliðaðri áætlun um framvindu verks, vinnustundafjölda og kostnað.
- Kennslumálanefnd áskilur sér rétt til að kanna niðurstöður úr könnun á kennslu og námskeiðum varðandi umsækjendur, ef tiltækar eru.
- Umsækjendur skulu gera grein fyrir öðrum styrkjum sem veittir eru til sama verkefnis. Umsækjendum ber m.a. að sýna fram á að þeir muni hafa tíma og aðstöðu til að vinna verkið sem styrkja skal.
- Umsókn skal vera árituð af forseta fræðasviðs eða deildarforseta, eftir því sem við á, til marks um að hann sé samþykkur umsókninni og þeim breytingum á kennslu sem hún kann að leiða til.
- Kennslumálanefnd er heimilt að leita munnlegra eða skriflegra umsagna um einstakar umsóknir hjá sérfróðum aðilum. Umsækjendum er heimilt að benda á 1-2 umsagnaraðila. Umsagnir skulu ekki fylgja umsókn.
III. Styrkhæfni, upphæð og greiðsla styrkja
- Styrkir eru ekki veittir vegna þess eins að kennari sé nýr í starfi eða að námskeið sé nýtt.
- Styrkir eru ekki veittir vegna verkefna sem ætla má að umsækjandi geti unnið að með öðrum hætti.
- Styrkir eru ekki veittir vegna kostnaðar við reglubundinn rekstur á tiltekinni kennslu.
- Styrkir eru ekki veittir til vinnu sem telja má eðlilegan undirbúning kennslu eða námsmats (prófavinnu), þar á meðal eðlilega aðlögun kennslu að nýjum tæknimiðlum.
- Sé þess kostur skulu umsækjendur tilgreina í umsókn viðfangsefnisnúmer í bókhaldi háskólans. Styrkurinn er þá færður inn á það númer. Hafi verið sótt um vegna dagvinnulauna skal styrkurinn eða viðeigandi hluti hans færður til tekna hjá þeim sem greiðir styrkþeganum dagvinnulaun.
- Styrkþega ber að skila lokaskýrslu um verkefni sitt til kennslumálanefndar. Fjórðungur styrks er ekki greiddur fyrr en slík greinargerð hefur borist. Miðað er við að verkefnum ljúki í síðasta lagi um önnur áramót frá því að styrkur er veittur.
- Styrkir eru ekki veittir eftir á fyrir verkefni sem er lokið. Heimilt að styrkja verkefni eftir að vinna við það er hafin.
- Umsóknir um framlengingu styrks eru aðeins teknar til greina í undantekningartilvikum.
IV. Mat á umsóknum
Við forgangsröðun umsókna skulu eftirfarandi sjónarmið m.a. höfð í huga:
- Styrkir til námsefnisgerðar eru því aðeins veittir að tryggt sé að efnið verði notað í tilteknum námskeiðum. Er þá m.a. litið til þess að umsækjendur séu líklegir til að starfa áfram að kennslu á viðkomandi sviði við Háskólann.
- Æskilegt er að verkefni nýtist hópi kennara og í fleiri námskeiðum en einu. Þegar þetta á við ber umsækjendum að gera nánari grein fyrir því, hvernig fyrirhugað er að koma verkefninu á framfæri við þá sem nýtt geta sér afrakstur þess.
- Þegar sótt er um styrk til námsefnisgerðar ber að athuga faglegar forsendur og ritstörf umsækjanda.