Háskóli Íslands

Reglur Rannsóknasjóðs

REGLUR FYRIR HÁSKÓLA ÍSLANDS
Nr. 569/2009

----------------------------------------------

75. gr.  Rannsóknasjóður Háskóla Íslands

 --------------------------

Vinnureglur við úthlutun

1. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands var stofnaður árið 1982 í þeim tilgangi að efla rannsóknastarfsemi við Háskólann. Vísindanefnd Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Skrifstofa vísindasviðs Háskólans sér um umsýslu sjóðsins.

2. Til þess að umsókn teljist styrkhæf verður vísindalegt gildi fyrirhugaðra rannsókna að vera ótvírætt. Verkefnið þarf að vera vel skilgreint faglega og tímaáætlun rökstudd. Einnig er nauðsynlegt að umsækjendur sýni fram á vísindalega hæfni sína og nægilega góða aðstöðu til þess að vinna fyrirhugað verk. Þeir sem meta umsóknir til sjóðsins eru beðnir að huga sérstaklega að því hversu líklegt sé að fyrirhugað viðfangsefni gefi niðurstöður sem fást birtar í fræðiritum er gera eða standast strangar kröfur. Umsækjendur sem hafa fengið styrk úr sjóðnum í þrjú ár án þess að birta niðurstöður rannsókna sinna í slíkum ritum geta að jafnaði ekki vænst frekari styrkja fyrr en birting hefur átt sér stað.

3. Úthlutað er einu sinni á ári og rennur umsóknarfrestur venjulega út 10. október (sbr. auglýsingu hverju sinni). Umsækjendum er ráðlagt að kynna sér hverjir eiga rétt til að sækja um fé úr sjóðnum og hvaða kostnaðarþætti sjóðurinn styrkir.

4. Umsækjendum er bent á að vönduð umsókn eykur líkur á styrkveitingu, starfsmenn vísindasviðs eru til aðstoðar fyrir umsækjendur eftir því sem kostur er. Ríkt er gengið eftir framvinduskýrslum um notkun fyrri styrkja úr sjóðnum og árangur sem náðist á styrktímabilinu. Hafi umsækjandi hlotið styrk til annars verkefnis ber honum að skila sérstakri skýrslu um það eigi síðar en við nýja umsókn.

5. Enda þótt heildarverkefni geti tekið mörg ár eru umsækjendur beðnir að gera framkvæmdaáætlun og lýsa ítarlega verkþáttum komandi styrktímabils. Greiðslur styrkja dreifast á styrktímabilið í samræmi við greiðsluáætlun. Þær eru almennt millifærðar á bókhaldsnúmer styrkþegans hjá stofnun eða deild.

6. Umsækjandi skal greina skilmerkilega frá væntanlegri hlutdeild annarra en Rannsóknasjóðs í kostnaði við verkefnið. Það er nauðsynlegt svo unnt sé að meta hversu mikilvægur styrkur úr sjóðnum er í heildarkostnaði og jafnframt til að tryggja að ekki verði veittur styrkur samtímis frá öðrum aðilum til sama kostnaðarþáttar. Tilgreina skal rök fyrir einstökum kostnaðarþáttum og skýra hvers vegna þörf er á styrk til þeirra.

7. Þegar sótt er endurtekið um styrk til langtímaverkefna er æskilegt að úthlutunarnefnd hafi heildaryfirsýn yfir kostnað og framvindu verkefnisins undangengin ár og næstu ár framundan.

8. Um styrkhæfi umsækjenda vísast til ákvæða 29. gr. og 43 gr. reglna Háskólans. Prófessorar, dósentar, lektorar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar við Háskóla Íslands geta sótt um fé úr sjóðnum. Vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar skulu hafa rannsóknir að aðalstarfi. Einnig geta aðjúnktar með rannsóknaskyldu sótt um stuðning sjóðsins. Styrkhæfir eru einnig sérfræðingar annarra stofnana sem gert hafa sérstakan samning við Háskóla Íslands um greiðslur í Rannsóknasjóðinn.

9. Við mat á verkefnum er fyrst og fremst farið eftir vísindagildi þeirra. Stjórn sjóðsins skal sjá til þess að hæfir aðilar gefi faglega umsögn um hverja umsókn. Sérfræðilegir ráðgjafar eru m.a. beðnir að meta sérstaklega hversu líklegt sé að niðurstöður fáist birtar í fræðiritum sem gera eða standast strangar kröfur.

10. Styrkir eru einkum veittir til eftirtalinna kostnaðarþátta:

a. Laun vegna vinnu doktorsnema og aðstoðarmanna við rannsóknarverkefni samkvæmt umsóknum.
b. Annar kostnaður við rannsóknir. Undir þennan lið falla m.a. ýmsar rekstrarvörur, aðkeypt þjónusta og tölvukostnaður. Ferðakostnaður erlendis er ekki veittur nema þegar sýnt þykir að það sé algjörlega óhjákvæmilegt vegna eðlis verkefnis. Enn fremur er höfð hliðsjón af því hvort umsækjandi hefur aðgang að öðrum sjóðum sem veita ferðastyrki. Ferðastyrkir eru veittir samkvæmt áætluðum kostnaði en ekki dagpeningaákvæðum.
c. Skráningarverkefni. Heimilt er að styrkja fræðileg skráningaverkefni og verkefni sem felast í fræðilegri úrvinnslu og framsetningu upplýsinga. Velja skal viðeigandi reit á eyðublaði. Til að skráningarverkefni séu styrkhæf þurfa þau að byggja á fræðilegum og gagnrýnum forsendum einstakra rannsóknasviða og vera undir stjórn rannsóknafólks sem býr yfir sömu fræðilegu hæfni og reynslu og ætlast er til í öðrum umsóknum. Ein meginforsenda styrkveitinga er að verkefnið sé líklegt til að styrkja og auðvelda háskólarannsóknir á viðkomandi sviði.

d. Tímabundin lausn frá kennslu.

1. Heimilt er að veita styrki til kennara sem vilja leysa sig tímabundið undan kennsluskyldu, eitt misseri í senn. Lausn frá kennsluskyldu er háð umsögn deildar. Styrkurinn er föst upphæð sem miðast við launaþróun hverju sinni og er ákveðin í samráði við fjárreiðusvið.
2. Tímabundin lausn frá kennslu skerðir ekki réttindi háskólamanna til aðgangs að sjóðum. Þau misseri sem kennari nýtur lausnar frá kennsluskyldu eru ekki talin með þeirri kennsluvinnu sem liggur til grundvallar rannsóknamisserum.
3. Þeim sem hljóta þennan styrk er óheimilt að sinna kennslu, annarri en þeirri sem felst í umsjón með rannsóknanámi framhaldsnema.
4. Þeim sem njóta þessa styrks, eða eru að sækja um hann, er einnig heimilt að sækja um styrki úr hinum almenna hluta sjóðsins samkvæmt gildandi vinnureglum.
5. Umsækjendur nota venjuleg eyðublöð Rannsóknasjóðs, en ætlast er til að liður um rannsóknaráætlun sé sérlega ítarlegur. Velja skal viðeigandi reit á eyðublaði.

11. Styrkir til nýdoktora.

a. Heimilt er að veita styrki til nýdoktora ef fjárveitingar sjóðsins leyfa. Til nýdoktora teljast þeir sem lokið hafa doktorsverkefni sl. fimm ár. Styrkhæfir eru nýdoktorar sem fjármagnaðir eru af sérstökum nýdoktorastyrk veittum einstaklingi í samkeppni af viðurkenndum aðila, svo sem frá Rannsóknasjóði vísinda- og tækniráðs eða úr öðrum rannsóknasjóðum, til að leggja stund á rannsóknir við Háskóla Íslands eða stofnanir í tengslum við hann.
b. Við mat á umsóknum er litið til gæða verkefnis umsækjanda út frá vísindalegu gildi þess og rannsóknaáætlun. Með umsókn þarf að fylgja staðfesting, frá deild eða stofnun, á að umsækjandi njóti fullnægjandi aðstöðu við Háskólann til þeirra rannsókna, sem hann hyggst stunda. Ennfremur er ritvirkni umsækjanda metin og umfang starfa hans við Háskólann.
c. Styrkþega er heimilt að verja styrk til eigin launa eða annars kostnaðar við rannsóknir sínar. Vísindanefnd ákveður hámarksupphæð styrkja ár hvert og skal upphæð þeirra koma fram í auglýsingu hverju sinni.
d. Umsóknum skal skilað til vísindasviðs á sérstökum eyðublöðum: Umsóknarfrestur um styrki til nýdoktora er að jafnaði til 1. mars.

12. Útlagður kostnaður er greiddur eftir því sem verkinu miðar, samkvæmt reikningum sem berast frá styrkþega. Ef um laun er að ræða ber að snúa sér til launadeildar, en reikninga vegna annars kostnaðar ber að senda til fjárreiðusviðs Háskólans.

13. Styrkir til doktorsverkefna.

a. Heimilt er að veita framfærslustyrki til doktorsnema. Fagráð vísindanefndar annast mat á umsóknum.
b. Við meðferð umsókna og mat á þeim skal fara eftir reglum Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is