Nokkur æviatriði
Aðalsteinn Kristjánsson var fæddur að Bessahlöðum í Öxnadal 14. apríl 1878, sonur hjónanna Kristjáns Jónassonar bónda frá Engimýri og Guðbjargar Þorsteinsdóttur frá Mýrarlóni. Hann fór 1882 með foreldrum sínum að Flögu í Hörgárdal, þar sem faðir hans lést 1887. Hann fluttist vestur um haf 1901 og mun fyrst hafa búið í Bandaríkjunum í þrjú ár. Aðalsteinn fékk síðan land nálægt Mozart-byggð í Saskatchewan og hugði á búsýslu, en seldi það land. Hann fór til Winnipeg, sem þá var í örum vexti, og bjó þar til1914. Aðalsteinn byggði nokkur stórhýsi þar í borg og leigði þau, og stundaði fasteignasölu ásamt Friðriki bróður sínum.Aðalsteinn kvæntist 1911 Olive Emely, af enskum ættum. Heimsóttu þau Ísland 1914 og ferðuðust þá víða um land. Þau slitu samvistir 1918 og voru þá barnlaus. Aðalsteinn mun einnig hafa verið á Íslandi veturinn 1917-1918. Hann gekk í breska herinn síðsumars 1918 og var sendur í herbúðir í Bretlandi, en sneri aftur 1919 og bjó síðan að mestu í Bandaríkjunum, þar af a.m.k. sex ár í Brooklyn. Síðustu æviárin bjó hann í Los Angeles, og mun Friðrik bróðir hans þá hafa annast fjármál hans. Aðalsteinn lést í Hollywood 14. júlí 1949 og var jarðsettur í Winnipeg.
Ritstörf
Aðalsteinn ritaði greinar m.a. í blöð í Winnipeg, fyrst 1904. Einnig samdi hann og gaf út bækur, líklega að mestu á eigin kostnað. Fyrsta bókin er Austur í blámóðu fjalla (Wpg. 1917), sem fjallar um Íslandsferð þeirra hjóna 1914, og um New York borg fyrr og nú. Aftast í bókinni er kafli „Hví söknum vér Íslands“, með bernskuminningum o.fl. Þá kom út bókin Svipleiftur samtíðarmanna (Wpg. 1927), með köflum um fjögur stórmenni í bandarískum stjórnmálum, ferð Aðalsteins til Bretlands 1918-1919 o.fl. Síðan komu kverin Á skotspónum I-III (Wpg. 1930, 1933, og Rvk. 1935) sem innihalda ýmsar endurminningar Aðalsteins, frásagnir, bréf og ævintýri. Á ensku gaf hann meðal annars út bókina In the starlight (Wpg. 1931) með þönkum um trúarbrögð og þjóðtrú, pistlum um kunningja hans í Bandaríkjunum og frásögnum af atvikum sem fyrir hann hafði borið.Aðalsteinn bendir m.a. á það í bókum sínum að í efnahags-, atvinnu- og menningarmálum ættu Íslendingar að taka sér til fyrirmyndar það sem best hefur áunnist í Bandaríkjunum og Kanada. Bækurnar hafa þótt skrifaðar á góðu máli og þar er bæði gamansemi og margt skáldlegt.
Kynni Aðalsteins og íslenskra samtíðarmanna
Aðalsteinn skrifaðist á við vesturíslensku skáldin Stephan G. Stephansson, Kristján N. Júlíus og Þorbjörn Bjarnason (Þorskabít). Á ferðum sínum hér varð Aðalsteinn kunnugur Matthíasi Jochumssyni og fékk mikið álit á honum. Landsbókasafni bárust að gjöf 1949-51 eiginhandarrit 96 prédikana sr. Matthíasar frá Aðalsteini og Friðrik bróður hans. Halldóri Laxness kynntist Aðalsteinn í Kaliforníu um 1928.Í greinum sr. Jónasar A. Sigurðssonar, J.T. Thorsson dómara og Einars P. Jónssonar er Aðalsteini lýst sem sannleiksleitandi dugnaðar- og hugsjónarmanni með mikla sjálfstæðisþrá. Í ritum hans segja þeir að endurspeglist ást á Íslandi (sbr. og ritdóm Sig. Kristófers Péturssonar um Austur í blámóðu fjalla, sem prentaður er í Á skotspónum II) og óskir um að þar megi verða sem mestar framfarir. Í bókum Aðalsteins, sem og í öðrum heimildum, kemur einnig fram að hann hafi þótt nokkuð sérlundaður á köflum.
Skrif Aðalsteins um gróður á Íslandi
Í bók Aðalsteins, Austur í blámóðu fjalla, eru nokkrir smákaflar, sem sýna að honum hefur þótt gróðri og ræktun áfátt á Íslandi 1914. Meðal annars segir hann í frásögn af ferð sinni innarlega í Eyjafirði: „ ... eru þar há og tignarleg fjöll á báðar hliðar; vitaskuld gæfi það þeim þýðari svip, ef þau hefði meiri gróður og graslendi; finnur maður til þess ærið víða, þar sem farið er um Ísland“ (bls. 78). Um Búnaðarskólann að Hólum í Hjaltasal segir hann: „Reyndar hafði eg gert mér von um að sjá víðar í Skagafirði matjurtagarða og tilraunir með trjáplöntur, en það kemur vitaskuld smátt og smátt með tíð og tíma“ (bls. 86). Í kafla um Akureyri ræðir Aðalsteinn um „ ... gróðrastöðina ungu og upprennandi, sem mun draga að sér gestsaugað með meiri og meiri fjálgleik, með hverju líðandi ári, og er vonandi að þangað eigi kyn sitt að rekja margur fagur hlynur víðs vegar um Norðurland, þegar tímar líða“ (bls. 111-112).
Erfðaskrá Aðalsteins og ráðstöfun eigna hans
Aðalsteinn Kristjánsson fór að kenna vanheilsu um miðjan aldur, og samdi erðaskrá 1926. Þar ánafnaði hann Manitoba-háskóla í Winnipeg talsverða fjárupphæð en meirihluti eigna hans átti þó að renna til þriggja verkefna á Íslandi: Í fyrsta lagi til stofnunar kennslustóls við Háskóla Íslands, í öðru lagi til skógræktar, og í þriðja lagi til byggingar heimilis fyrir munaðarlaus og hjálparþurfi börn í Eyjafirði. Féð var að mestu leyti ávaxtað í Kanada, en hluti arfsins hefur um nokkurt árabil verið í vörslu Háskóla Íslands.Við stofnun prófessorsembættis og rannsóknastofu í eðlisfræði við HÍ 1957 var gert ráð fyrir því að sjóður Aðalsteins stæði straum af hluta launakostnaðar, en framkvæmd mun hafa dregist og var skipulagsskrá „Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði við Háskóla Íslands“ ekki staðfest fyrr en 1978. Styrkir hafa verið veittir úr sjóðnum, m.a. til rannsóna próf. Jóhannesar Axelssonar og samstarfsmanna á Vestur-Íslendingum um og eftir 1987. Á síðustu árum hefur sjóðsstjórn, tilnefnd af Háskólaráði, þrívegis veitt fé til að kosta tímabundnar ráðningar í rannsóknaprófessorsstöðu sem kennd er við Aðalstein.Friðrik Kristjánsson, bróðir Aðalsteins, (1883-1954) var kvæntur Hólmfríði Jósefsdóttur frá Geitastekk í Dalasýslu. Þau áttu sex börn og var eitt þeirra Aðalsteinn Fr. Kristjánsson (1923-1992) sem rak lengi ásamt öðrum lögmannsstofu í Winnipeg. Hann sá m.a. um ávöxtun þess hluta arfs Aðalsteins eldra sem þar var geymdur. Diane, ein fjögurra barna Aðalsteins yngra, hefur unnið að uppgjöri sjóðsins eftir lát föður síns og kom til Íslands ásamt eiginmanni sínum sumarið 1994 til að afhenda greiðslu arfsins. Auk Háskóla Íslands og Skógræktarfélagsins munu samtökin Barnaheill hafa hlotið fjármuni af þessum arfi.
Skógræktarsjóður
Í framhaldi af komu sinni til Íslands 1994 og viðræðum við Skógræktarfélag Íslands óskaði Diane eftir því að félagið tæki við þeim hluta arfsins sem ætlaður var til skógræktar. Aðalsteinn hafði í erfðaskrá sinni nokkuð mótaðar hugmyndir um hvernig þessu fé skyldi varið. Stjórn Skógræktarfélags Íslands ákvað í Samráði við Diane að stofna minningarsjóð sem bæri nafn Aðalsteins en sjóðurinn er í vörslu féflagsins. Stofnfé sjóðsins er tæpar 8 milljónir króna og var sjóðnum sett sérstök skipulagsskrá en samkvæmt henni er heimilt að verja allt að 70% raunvaxta til ákveðinna verkefna vegna eflingar skógrækt á Íslandi samkvæmt nánari tilgreindum reglum.
Summary
Mr. Aðalsteinn Kristjánsson (1878-1949) was one of the many Icelanders who emigrated to North America around the turn of the century. While he lived in the rapidly expanding city of Winnipeg in 1904-1914 he and his brother Friðrik constructed a number of large buildings for rent, as well as dealing in other real estate. Mr. Kristjánsson visited Iceland in 1914 and in 1917-1918. He joined the British army in 1918 for about a year, but much of his later life was spent in New York and in Los Angeles. He published several books in Icelandic and English, containing among othert things his reminiscences and traveloguies. Biographies of American statesmen, and fables.Mr. Kristjánsson who left no dependents, stipulated in his will that his estate should be divided in support of the Universities of Iceland and Manitoba, orphans in northern Iceland, and reforestation efforts in Iceland. These funds were at first invested mostly in Canadian sescurities by the executors, but the contribution to forestry, amounting to $466,685 was handed over to The Icelandic Forestry Association by Diane Kristjánsson in 1995.