Háskóli Íslands

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar

Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki. Styrkþegi skal halda fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki eigi síðar en tveimur árum eftir að honum var veittur styrkurinn. 

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar var stofnaður árið 1990 við Háskóla Íslands af Elínu Brynjólfsdóttur (1928-2001) og eiginmanni hennar Godtfred Vestergaard (1929-2018). Elín Brynjólfsdóttir var dóttir Brynjólfs Bjarnasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra og heimspekings og Godtfred var danskur verkfræðingur af íslenskum ættum og forstjóri fyrirtækisins Vestergaard Company A/S.

Brynjólfur Bjarnason fæddist árið 1898 og stundaði sem ungur maður nám í Kaupmannahöfn og Berlín. Heimspekiiðkun og önnur fræðastörf Brynjólfs véku þó fyrir pólitísku starfi fram á efri ár, því hann var í framvarðasveit íslenskra sósíalista, sat á alþingi og gegndi ráðherraembætti. Framlag hans til íslenskrar heimspeki verður seint ofmetið enda má segja að hann hafi unnið brautryðjendastarf í heimspekiiðkun hér á landi. Þegar Brynjólfur hóf að rita um heimspeki á 6. áratug síðustu aldar, var hann nánast einn á landinu að fást við slíkar skriftir. Eftir að kennsla í heimspeki sem sjálfstæðri grein var tekinn upp við Háskóla Íslands upp úr 1970 komst Brynjólfur í ágæt kynni við marga nemendur og kennara við skólann í gegnum sameiginlegt áhugamál. Var hann meðal annars gerður að fyrsta heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki. Rit á borð við Forn og ný vandamál (1954), Á mörkum mannlegrar þekkingar (1965) og Lögmál og frelsi (1970) bera þekkingu Brynjólfs og innsýn í sígild vandamál heimspekinnar vitni. Brynjólfur lést árið 1989. Það var ósk Brynjólfs sjálfs að styrkja íslenskan heimspeking til náms, en það voru dóttir hans Elín Brynjólfsdóttir og Gottfred Vestergaard sem stofnuðu sjóðinn sem hefur þetta að markmiði.
 

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn.

Stjórn sjóðsins skipa:

  • Björn Þorsteinsson, prófessor og formaður stjórnar
  • Eyjólfur Kjalar Emilsson, heimspekingur
  • Frida Vestergaard, dóttir stofnenda sjóðsins

Skipulagsskrá (.pdf).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is