Fyrirhugað er að veita styrk eða viðurkenningu úr sjóðnum 7. júní 2010.
Úthlutað hefur verið fjórtán sinnum úr Minningarsjóði dr. phil. Jóns Jóhannessonar prófessors.
Fyrsti styrkurinn var veittur úr sjóðnum á afmælisdegi prófessors Jóns, 6. júní árið 1984. Styrkinn hlaut Þórunn Valdimarsdóttir, cand.mag. Rannsókn hennar var að bera saman nokkur handrit hér heima og erlendis.
Í júní árið 1987 var veittur styrkur úr sjóðnum. Styrkinn hlaut Guðrún Nordal BCA sem stundaði þá nám í fornbókmenntum við Háskólann í Oxford og var að semja doktorsritgerð. Ritgerðin heitir „Ethics and action in thirteenth century Iceland. An examination of motivation and social obligation in Iceland c. 1180-1264, as represented in Sturlungasaga“. Í ritgerðinni er m.a. fjallað um þjóðfélagsskyldur einstaklinga, t.d. við fjölskyldu, vini og samherja, deilumál á 13. öld og trúarlíf á öldinni. Niðurstöður rannsóknarinnar voru síðan bornar saman við Íslendingasögur, hvar sem við á.
Í júní árið 1989 var úthlutað úr sjóðnum. Styrkinn hlaut Skúli Sigurðsson sem var að semja ritgerð til doktorsprófs í vísindasagnfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.
Árið 1990, þann 6. júní á afmælisdegi prófessors Jóns, hlaut Leó Ingvason sagnfræðingur styrk úr sjóðnum. Leó vann að ritgerð og athugunum í tengslum lands og þjóðar við Holland og Hollendinga á fyrri öldum, m.a. siglingum þeirra hingað, verslun, fiskveiðum o.fl.
Í júní árið 1991, á afmælisdegi dr. Jóns, fékk Sigríður K. Þorgrímsdóttir BA styrk úr sjóðnum. Sigríður vann að því að safna því saman sem Þura Árnadóttir frá Garði lét eftir sig í rituðu máli, en mikið af því hafði ekki verið gefið út. Efni þetta er að stórum hluta þjóðlegur fróðleikur, m.a. þættir af fólki og atvinnuháttum þess og lífi fyrr á tímum.
Árið 1992 hlaut Svanhildur Óskarsdóttir MA styrk úr sjóðnum. Svanhildur nam íslensku og heimspeki við Háskóla Íslands og einnig miðaldafræði við Háskólann í Toronto og Hafnarháskóla. Hún hugðist gera samsteypurit á miðöldum að doktorsverkefni sínu. Viðfangsefnið fólst m.a. í könnun á skáldskaparfræðum miðalda, hugmyndum miðaldamanna um höfundinn og um meðferð heimilda.
Árið 1993 var veittur styrkur til Aðalheiðar Guðmundsdóttur. Aðalheiður stundaði nám við Háskóla Íslands og var að semja kandídatsritgerð í íslenskum bókmenntum um ævintýraminnið um vondu stjúpuna, þ.e. „stjúpu og álagaminnið“.
Árið 1994 var veittur styrkur úr sjóðunum. Styrkinn hlaut Hrefna Róbertsdóttir. Hrefna stundaði nám við Háskóla Íslands og auk þess hafði hún samið allmargar greinar um sagnfræðileg efni. Hrefna var þá að semja kandídatsritgerð um innréttingar og ullariðju á 18. öld.Ármann Jakobsson BA hlaut styrk úr sjóðnum árið 1995.
Ármann stundaði nám við Háskóla Íslands í íslenskri málfræði og íslenskum bókmenntum og hann hafði þá þegar samið ýmsar greinar um fræðileg efni. Ármann var að semja MA-ritgerð sína um konungsímynd nokkurra miðaldarita.
Gunnar Ólafur Hansson hlaut styrkinn sem úthlutað var árið 1996. Gunnar Ólafur hafði stundað nám í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann var að semja MA-ritgerð um efni á sviði sögulegrar hljóðkerfisfræði. Námsferill Gunnars Ólafs hafði verið einkar glæsilegur og stefndi hann á framhaldsnám við Kaliforníuháskólann í Berkeley.
Árið 1997 hlaut Guðni Th. Jóhannesson styrk úr sjóðnum. Guðni lauk stúdentsprófi frá MR árið 1987. Hann stundaði nám í Warvick-háskóla á Englandi í sögu og stjórnmálafræði og lauk BA-prófi árið 1991. Þá stundaði Guðni nám í sagnfræði í Háskóla Íslands og hann lauk MA-prófi þaðan. Í lokaritgerðinni fjallaði hann um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Guðni var stundakennari við Háskóla Íslands og var á leið í framhaldsnám í sagnfræði við háskóla erlendis.
Árið 1998 hlaut Halldór Bjarnason styrk úr sjóðnum. Halldór hafði lokið BA-prófi og einnig kandídatsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann stundaði þá nám í hagsögu í Glasgow-háskóla.
Hallgrímur J. Ásmundason hlaut styrkinn úr sjóðnum árið 2000. Hallgrímur hafði lokið BA-prófi í íslensku og var að leggja lokahönd á MA-ritgerð um ágrip af Noregskonungasögum.
Árið 2002 var úthlutað úr sjóðnum. Styrkinn hlaut Lára Magnúsdóttir, sem var þá doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Lára rannsakaði bannfæringar á Íslandi á síðmiðöldum.
Árið 2010: Fyrirhugað er að úthluta úr sjóðnum 7. júní nk.
Yfirlit yfir starf minningarsjóðs dr. phil. Jóns Jóhannessonar 1983-2003 (.pdf).