Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Samkvæmt erfðaskránni skal nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði, en gangi ekki til almenns rekstrarkostnaðar háskólans.
Fyrst af öllu er sjóðnum ætlað styrkja málefni er stuðla að eflingu íslenskrar tungu.
Styrkir skulu veittir starfsmönnum eða nemendum Háskóla Íslands til sérverkefna á vegum háskólans á sviði íslenskra fræða er falla að þessu markmiði, s.s. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða tækja og búnaðar í þágu tilgangs sjóðsins. Sérstaklega skal stutt við verkefni er lúta að ritfærni og þjálfun nemenda allra fræðasviða háskólans við beitingu íslensks máls og til að styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
Sjóðurinn er stofnaður af Háskóla Íslands til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason.
Áslaug stundaði nám í lyfjafræði við Lyfjafræðingaskóla Íslands og verknám í Ingólfs Apóteki. Eftir útskrift sem aðstoðarlyfjafræðingur hélt Áslaug til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole 1957. Áslaug starfaði lengst af í Reykjavíkur Apóteki og Lyfjabúð Breiðholts og lagði þar m.a. mikla rækt við lyfjafræðinema frá Háskóla Íslands sem komu til verknáms undir hennar handleiðslu. Í Lyfjabúð Breiðholts starfaði Áslaug með Ingibjörgu Böðvarsdóttur apótekara. Auk samstarfs í apótekinu skrifuðu þær mikið saman um sögu lyfjafræði og vildu hlúa að sögulegri vitund í samfélaginu. Þær voru enn fremur ötulir hvatamenn að útkomu Lyfjafræðingatals. Þá vann Áslaug merkilegt starf ásamt hópi lyfjafræðinga við að koma upp Lyfjafræðisafni við Neströð á Seltjarnarnesi. Áslaug starfaði í Íslensku esperanto-hreyfingunni í rúma þrjá áratugi og var lengi í stjórn Aúroro, esperanto-félags Reykjavíkur. Áslaug arfleiddi Náttúruverndarsamtök Íslands að sumarbústað sínum í landi jarðarinnar Hæðarenda í Grímsnesi auk 12,5% af öllum bankainnistæðum og andvirði verðbréfa, sem hún lét eftir sig.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.
- Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands.
- Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeritus, tilnefnd af rektor Háskóla Íslands.
- Viðar Guðmundsson, tilnefndur af ættingjum Áslaugar.
Staðfest skipulagsskrá (.pdf)