Háskóli Íslands

Íslenskusjóðurinn

Markmið sjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi.Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Styrkir skulu veittir vegna verka sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefna einkum á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeiða, bókaskrifa, bókaþýðinga og bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, heimasíðna, efnis fyrir snjalltæki og annars sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins.

Íslenskusjóðurinn er stofnaður af Elsu Sigríði Jónsdóttur og Tómasi Gunnarssyni til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson.

Sigríður S. Sigurðardóttir f. 1903, d. 1989. Sigríður var Austfirðingur að ætt og uppruna, lauk kennaraprófi en starfaði einkum sem húsmóðir í Borgarnesi.

Jón Sigurðsson f. 1904, d. 2002. Jón var af breiðfirskum og húnvetnskum ættum, ólst upp í Borgarfirði, lauk námi frá Bændaskólanum á Hvanneyri en starfaði lengi við verslunarstörf í Borgarnesi.

Björg Tómasdóttir f. 1917, d. 1990. Björg var fædd í Skagafirði austan vatna, átti ættir að rekja þangað og ólst þar upp. Björg lauk kennaraprófi en var lengst af sjúklingur.

Gunnar Guðmundsson f. 1913, d. 1974. Gunnar var fæddur í Dalasýslu en var af húnvetnskum og skagfirskum ættum. Hann lauk kennaraprófi og starfaði sem kennari í íslensku og síðar skólastjóri við Laugarnesskólann í Reykjavík.

Þau voru öll af ungmennafélagskynslóðinni, þar sem fullveldi Íslands og sjálfstæði voru meginmál. Íslensk tunga var þeim hjartfólgin og vildu þau veg hennar sem mestan.

 

Stjórn sjóðsins skipa:

  • Jóhanna Einarsdóttir, prófessor emerita, Menntavísindasviði, formaður
  • Renata Emilsson Pesková, lektor á Menntavísindasviði
  • Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnisstjóri á Hugvísindasviði

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.

 

Skipulagsskrá (pdf.)

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is