Óðinn Andrason og Vigdís Finnbogadóttir við afhendingu styrksins á Litla Torgi.

Óðinn Andrason, BS-nemi á þriðja ári í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti styrkinn ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur, systur Þorvalds. 

Sjóðurinn styrkir árlega efnilega nema í verkfræði við Háskóla Íslands til framhaldsnáms. Sá nemandi sem er með hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í grunnnámi hlýtur styrkinn hverju sinni. 

Óðinn lauk stúdentsprófi af raungreinabraut Menntaskólans á Akureyri árið 2022 og var semidúx skólans. Hann hóf nám við Háskóla Íslands sama ár og hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands, sem veittur er nýnemum sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Óðinn var í ólympíuliði Íslands í stærðfræði árið 2021 og tók þátt í Evrópsku Ólympíuleikunum í eðlisfræði árið 2022 þar sem hann hlaut heiðursverðlaun. Óðinn stundaði sumarnám við Stanford University sumarið 2024 í svonefndu Stanford Summer International Honors Program. Hann stefnir á framhaldsnám í vélaverkfræði í Bandaríkjunum.

Frá styrkveitingu. Myndir: Gunnar Sverrisson