Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir

STAFN - Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar

Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, svo sem gervigreind og lífupplýsingafræði.

Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir

STAFN - Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar

Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, svo sem gervigreind og lífupplýsingafræði.

Sjóðurinn veitir styrki til íslenskra nemenda við og frá Háskóla Íslands sem eru í framhaldsnámi, meistarastigi eða hærri stigum – hér heima eða erlendis, og tengja saman greinar í vinnu sinni, til dæmis rannsaka líffræðilega ferla með tölvulíkönum og aðferðafræði gervigreindar. Einkum er litið á umsóknir sem tengjast heilsu, líftækni og lyfjaþróun á einhvern hátt.

Sjóðnum er ætlað að efla samvinnu milli námssviða og hvetja námsfólk til víðrar hugsunar á milli tæknisviða og greina. Áætlað er að veita styrki til tveggja einstaklinga/verkefna á ári hverju í samræmi við markmið sjóðsins.

Sjóðurinn er stofnaður 5. janúar 2024.

Sjóðurinn, stjórn og umsóknir

Stofnendur sjóðsins eru hjónin Brynja Einarsdóttir og Örn Almarsson. Brynja og Örn eru búsett í Bandaríkjunum en með rætur og starfsemi á Íslandi.

Örn útskrifaðist úr efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988. Að loknu framhaldsnámi í Kaliforníuháskólanum í Santa Barbara árið 1994 héldu Örn og Brynja til austurstrandar Bandaríkjanna og hafa þau búið og starfað þar síðan.

Örn hefur gegnt ábyrgðar- og áhrifastöðum í lyfjaþróun og líftækni síðustu þrjá áratugina, þar á meðal í sjö ár hjá Moderna á síðastliðnum áratug við þróun mRNA-lyfja og bóluefna.

Árið 2022 stofnuðu hjónin, ásamt meðstofnanda á Englandi fyrirtækið Axelyf sem er íslenskt fyrirtæki starfandi á alþjóðlegum grundvelli. Axelyf fæst við nýsköpun og lyfjaþróun byggða á astaxanthin-afleiðum og öðrum lípíðum.

Rektor Háskóla Íslands skipar úthlutunarnefnd sjóðsins til þriggja ára í senn. Hlutverk úthlutunarnefndar er að halda utan um úthlutanir úr sjóðnum og kynningarmál þeim tengd, í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands.

Í úthlutunarnefnd sjóðsins sitja:

  • Eiríkur Steingrímsson prófessor
  • Margrét Helga Ögmundsdóttir prófessor
  • Steinn Guðmundsson prófessor

Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sem skipuð er af háskólaráði, fer með stjórn sjóðsins. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins, fjársýslu og eftirlitshlutverk hans.

Staðfest skipulagsskrá STAFN - Styrktarsjóðs Brynju Einarsdóttur og Arnars Almarssonar (PDF).

Auglýsing um umsóknartímabil er sett á vef sjóða og á vef Háskóla Íslands. Einungis er opið fyrir umsóknir á auglýstum umsóknartíma.

Í umsókn um styrk þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

  1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang. 
  2. Háskóli sem viðkomandi er skráður við.
  3. Heiti verkefnis, markmið og vísindalegt eða hagnýtt gildi.
  4. Útdráttur: Hnitmiðuð lýsing á verkefninu,  sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk (hámark 150 orð).
  5. Veigameiri lýsing á verkefninu þar sem fram kemur nánari lýsing á markmiðinu með verkefninu, framkvæmd þess og afrakstri (hámark 1,500 orð).
  6. Upphaf verkefnis (mánuður, ár).
  7. Tímaáætlun og fjárhagsáætlun verkefnis.
  8. Samstarfsaðilar og aðrir styrkaðilar verkefnis ef við á.
  9. Hvernig styrkurinn verður notaður hljóti verkefnið styrk.
  10. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning.
  11. Nöfn, símanúmer og netföng tveggja mögulegra meðmælenda.
  12. CV og ritaskrá (fylgiskjal).

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. 

Styrkþegi skal gera grein fyrir stöðu verkefnisins að ári liðnu. Ef styrkur er ekki nýttur í samræmi við umsókn skal honum skilað.

Styrkhafar

2025

  • Ingibjörg Kristjánsdóttir
  • Luca Protti

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2025.

2024

  • Erna María Jónsdóttir
  • Valdís Gunnarsdóttir Þormar

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2024.

 

Fréttir af sjóðnum

Styrkþegar ásamt rektor Háskóla Íslands, öðrum stofnanda sjóðsins og stjórn hans. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Örn Almarsson, annar stofnenda sjóðsins, Ingibjörg Kjartansdóttir styrkþegi, Luca Prott styrkþegi, Margrét Helga Ögmundsdóttir stjórnarmaður, Eiríkur Steingrímsson, formaður stjórnar, og Steinn Guðmundsson stjórnarmaður.
Frá styrkafhendingu.

Viltu styrkja?

Styrktarsjóðir eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Share