Kristín Ingólfsdóttir gefur Margréti og Bent Scheving Thorsteinsson blómvönd

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar

Markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.

Kristín Ingólfsdóttir gefur Margréti og Bent Scheving Thorsteinsson blómvönd

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar

Markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.

Þetta er þriðji sjóðurinn sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Sjóðurinn var stofnaður 25. september 2001 með framlagi kr. 11.910.000.

Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis og fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og hinn er Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, til styrktar rannsóknum á sviði lyfjafræði. 

Samtals nema gjafir Bents til Háskóla Íslands rúmlega kr. 60 milljónum króna og er það rannsóknarstarfi við Háskólann mikil lyftistöng að eiga jafngóðan velunnara og Bent Scheving Thorsteinsson.

Sjóðurinn, stjórn og umsóknir

Bent Scheving Thorsteinsson var fæddur þann 12. janúar 1922 og lést 7. janúar 2015. Hann var sonur Guðrúnar Sveinsdóttur og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Fyrstu æviárin ólst Bent upp í Danmörku hjá dönskum fósturforeldrum en um níu ára aldur fluttist hann hingað til lands þar sem hann ólst upp með móður sinni og eiginmanni hennar, Óskari Þórðarsyni barnalækni, sem gekk Bent í föðurstað.  Bent átti síðar ágæt samskipti við föður sinn.

Bent hóf nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1943. Hann lagði síðan stund á nám í hagfræði og lauk prófi frá The Wharton School of Finance and Commerce í Bandaríkjunum. Bent kvæntist Margaret Ritter Ross Wolfe árið 1945 en hún er dóttir Charles Wolfe verslunarmanns í Ohio í Bandaríkjunum. Margaret tók upp eftirnafn eiginmanns síns og eignuðust þau sjö börn. 

Margaret ólst upp í Williamsport og á bóndabýli fjölskyldunnar. Hún lauk námi í hjúkrun frá Pennsylvania Hospital School of Nursing árið 1945 og sérnámi í skurðstofuhjúkrun og svæfingum frá University of Pennsylvania árið 1946. Eftir úrskrift hóf Margaret störf barnaspítala í Philadelphiu.

Bent vann lengst af hjá Rafmagnsveitum ríkisins, bæði sem innkaupastjóri og sem fjármálastjóri. Hann lét sig ýmis velferðar- og félagsmál varða og var m.a. skátaforingi og formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar. Auk þess var Bent annt um rannsóknir og vísindi og gaf hann háar fjárhæðir til stofnunar styrktarsjóða við Háskóla Íslands og Landspítalann.

Margaret flutti til Íslands 1948 og starfaði lengst af á Landspítalanum og síðar Landakotsspítala fram til ársins 1986 auk þess að sinna heimili og börnum. Margaret var í kvenfélagi Dómkirkjunnar og félagi í Oddfellowreglunni. Hún las mikið og hafði gaman af alls kyns handverki og handavinnu. Naut þess mikið að fara í leikhús og í óperuna og hlusta á klassíska tónlist. Margaret og Bent höfðu alla tíð mikið yndi af ferðalögum, útivist, golfi og sundi.

Bent Scheving var í mun að gefa til baka til samfélagsins af því sem hann hafði aflað sér. Hann var mikill áhugamaður um vísindarannsóknir og þekkingarsköpun og hefur verið velgjörðarmaður Háskóla Íslands frá síðustu aldamótum. Samtals hefur Bent fært skólanum 60 milljónir króna til stuðnings vísindum og rannsóknum og hefur féð runnið til stofnunar þriggja sjóða, sem heyra undir Styrktarsjóði Háskólans.

Scheving-sjóðirnir hafa veitt ungum vísindamönnum ómetanleg tækifæri til rannsókna við Háskóla Íslands en samtals hafa verið veittir fjörutíu styrkir til rannsókna úr sjóðunum.

Styrktarsjóðir á borð við þá sem Bent og Margaret stofnuðu eru mjög mikilvægir, ekki síst fyrir ungt vísindafólk sem er að hasla sér völl. Sjóðirnir eru ein af forsendum þess að ungt vísindafólk geti sótt um styrki í stórum erlendum samkeppnissjóðum. Við slíkar umsóknir er nauðsynlegt að sýna fram á að mótframlag hafi komið í formi fjárstuðnings ásamt því að niðurstöður rannsóknanna hafi verið birtar í ritrýndum vísindatímaritum.

Það hefur verið rannsóknarstarfi Háskóla Íslands mikil lyftistöng að eiga jafn mikla velunnara og Margareti og Bent Scheving Thorsteinsson og vill háskólinn þakka þeim fyrir einstakan stuðning í gegnum tíðina. Sjóðirnir munu halda minningu þeirra á lofti um ókomin ár.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.

Rektor Háskóla Íslands skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins. Forseti Félagsvísindasviðs tilnefnir tvo menn í stjórn og skal annar þeirra vera fulltrúi Lagadeildar. Forseti Menntavísindasviðs tilnefnir einn mann í stjórn.  Við tilnefningar í stjórn sjóðsins skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins.

Í stjórn sjóðsins sitja:

  • Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, formaður
  • Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild
  • Kristján Ketill Stefánsson, lektor við Deild kennslu- og menntunarfræða

Varamenn í stjórn:

  • Trausti Fannar Valsson, dósent við Lagadeild
  • Kolbeinn Hólmar Stefánsson, lektor við Félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild
  • Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor við Deild menntunar og margbreytileika

 

Staðfest skipulagsskrá.

Auglýsing um umsóknartímabil er sett á vef sjóða og á vef Háskóla Íslands. Einungis er opið fyrir umsóknir á auglýstum umsóknartíma.

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram: 

  1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
  2. Heiti rannsóknarverkefnis, markmið og vísindalegt gildi. 
  3. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk. 
  4. Ferilskrá.
  5. Veigameiri lýsing á rannsóknarverkefninu, ein blaðsíða að hámarki. Fram komi hvernig verkefninu er ætlað að auka við núverandi þekkingu á efninu og hvernig verkefnið samræmist markmiðum sjóðsins. Sé ætlunin að óska eftir stuðningi við hluta af stærra verkefni skal koma fram til hvaða þáttar sótt er um styrk.
  6. Áætlun um framvindu, tímaáætlun, fjárhagsáætlun og yfirlit yfir helstu samstarfsaðila í verkefninu. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
  7. Ferilskrá og nöfn, símanúmer og netföng þeirra sem leita má til um meðmæli.

Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Gert er ráð fyrir því að styrkþegi skili sjóðnum greinargerð um stöðu verkefnisins innan árs frá afhendingu styrks. 

Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

24. janúar 2014

„Háskóli Íslands er stolt okkar Íslendinga,“ segir Bent Scheving Thorsteinsson, einn helsti velgjörðarmaður skólans. Á undanförnum árum hafa verið veittir fjölmargir styrkir úr þeim sjóðum sem stofnaðir hafa verið við háskólann í krafti framlags Bents og Margaretar Scheving Thorsteinsson, konu hans.

Sjálfur varð Bent fyrir einelti í æsku og hefur sú reynsla setið í honum alla tíð. Hann hefur lagt hart að sér til að koma í veg fyrir að annarra bíði svipuð örlög. Ofangreindur sjóður hefur það markmið að stuðla að rannsóknum á einelti og kanna lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja það og bæta fyrir afleiðingar þess.

Á einum áratug hafa Bent og Margaret Scheving Thorsteinsson kona hans fært Háskóla Íslands um 60 milljónir króna sem hafa runnið til stofnunar þriggja styrktarsjóða. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar og Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis. Sjóðirnir eru allir afar mikilvægir fyrir ungt fólk sem er að hasla sér völl á sviði vísinda.

Bent og Margaret hafa einnig fært Landspítalanum 30 milljónir króna. Bent segir:

Háskólinn er  toppurinn. Það er okkur öllum mikið keppikefli að þessum skóla vegni vel. Margir góðir menn hafa lagt háskólanum lið og það vil ég líka gera.

Þegar við hittum Bent hefur hann hreiðrað um sig innan um bækurnar sínar og horfir út um glugga sem vísar til suðurs; út á sundin sem hann sigldi yfir þegar hann fluttist hingað heim sem ungur drengur. Bent fæddist í Árósum í Danmörku árið 1922.

Ævi Bents er um margt afar sérstök. Foreldrar hans voru Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali og Guðrún Sveinsdóttir. Bent fæddist utan hjónabands sem þótti ekki alveg eftir bókinni á þeim tímum. Fyrstu æviárin ólst Bent upp hjá dönskum fósturforeldrum og var fullviss um að vera danskur í húð og hár. En um níu ára aldur fékk hann ávæning af því að í honum rynni íslenskt blóð.

Honum var svo tjáð að móðir hans væri á lífi og hann hefði raunar hitt hana án vitneskju um hin raunverulegu tengsl þeirra, en hún hafði þá verið kynnt fyrir honum sem frænka hans. „Ég var undrandi á þessu öllu saman og stuttu síðar vildi móðir mín fá mig til Íslands úr fóstri,“ segir Bent. „Hún hafði þá gifst Óskari Þórðarsyni lækni, miklum ágætis manni. Aðstæður hennar  voru orðnar allt aðrar en þegar ég fæddist. Ég hafði hins vegar enga löngun til að þvælast þetta norður á ísbjarnarslóðir, ég þessi Dani,“ segir Bent og hlær. „Það lögðust hins vegar allir á eitt að varpa ljóma á ævintýraeyjuna Ísland og ég lét á endanum undan.“

Á hlýjum júlí degi árið 1931 steig Bent á skipsfjöl á Dronning Alexandrine sem hélt í langa siglingu frá Kaupmannahöfn til Íslands. Þegar skip Danska sameinaða gufuskipafélagsins kyssti viðlegukantinn í Reykjavík varð drengurinn fyrir miklum vonbrigðum. „Fátt var um fína drætti í bænum; ég kunni ekki stakt orð í íslensku, skildi ekki baun...  og var ofan í annað kallaður Bauni,“ segir Bent og brosir þegar hann rifjar upp mótlætið.

Ég mátti þola gríðarlega stríðni og varð hreinlega fyrir hræðilegu einelti.

Þrátt fyrir mótlætið náði Bent að fóta sig í sínum nýju heimkynnum og náði öruggum tökum á íslenskunni. Hann átti síðar ágæt samskipti við föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, en ólst upp með móður sinni og eiginmanni hennar, Óskari Þórðarsyni, sem gekk Bent í föður stað. Þótt drengurinn væri býsna smár og horaður, þegar hann sté af skipsfjöl í súldinni sumarið 1939, þá varð hann síðar býsna hávaxinn maður og aðsópsmikill í viðskiptum. „Ég hóf nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1943 en lauk námi í hagfræði frá The Whorton School of Finance and Commerce í Bandaríkjunum. Þar kynntist ég henni Margaret minni og þetta hefur haldist í öll þessi ár,“ segir Bent, kíminn á svip.

„Eftir að ég hætti vinnu fór ég að sýsla með sparnaðinn og sá að hægt var að ávaxta peningana betur en bauðst í bönkunum. Ég hóf því viðskipti með verðbréf. Þegar ég var kominn fyrir vind vildi ég að aðrir gætu notið ávaxtanna af því sem ég hafði verið að sýsla.“ Bent stofnaði ýmsa styrktarsjóði, aðallega til stuðnings bágstöddum og til vísindarannsókna.

Með því að styðja við vísindarannsóknir við háskólann hafa fjölmargir sýnt þjóð sinni sóma og það er mér sannur heiður að fá að komast í hóp þeirra manna sem hafa stutt skólann. Háskólinn hefur sett sér það markmið að verða á lista hundrað bestu háskóla í heimi. Ef ég get stutt skólann á þeirri vegferð með því að auka veg vísindarannsókna við skólann, þá finn ég til stolts.

Styrkhafar

2025

  • Lara Wilhelmine Hoffmann

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2025.

2023

  • Sema Erla Serdaroglu

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2023.

2021

  • Anna Magnea Hreinsdóttir

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2021.

2019

2016

  • Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2016.

2014

  • Vanda Sigurgeirsdóttir
  • Anna Margrét Magnúsdóttir 

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2014.

2013

  • Eyrún María Rúnarsdóttir

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2013.

2012

  • Esther Ösp Valdimarsdóttir
  • Hjördís Sigursteinsdóttir

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2012.

2010

  • Þórhildur Líndal fyrir hönd Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í samvinnu við
  • Halldór S. Guðmundsson fyrir hönd Félagsráðgjafardeildar HÍ og 
  • Halldóru Vöndu Sigurgeirsdóttur fyrir hönd Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar HÍ.

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2010.

2003

  • Elín Einarsdóttir
  • Vanda Sigurgeirsdóttir
  • Inga Dóra Sigfúsdóttir

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2003.

Fréttir af sjóðnum

Lara Wilhelmine Hoffmann, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og Brynhildi G. Flóvenz og Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur, stjórnarmönnum í sjóðnum, við afhendingu styrksins á rektorsskrifstofu.
Frá afhendingu styrksins í Hátíðasal. Frá vinstri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir prófessor, Brynhildur G. Flóvenz dósent, styrkhafinn Sema Erla Serdaroglu og Jón Atli Benediktsson rektor.

Viltu styrkja?

Styrktarsjóðir eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Share