Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands. Í vörslu Styrktarsjóðanna eru um fimmtíu sjóðir og gjafir, sem borist hafa Háskólanum allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa eftir staðfestri skipulagsskrá sem ætlar þeim að úthluta styrkjum til ýmissa verkefna nemenda, kennara og vísindamanna.
Umsjón með Styrktarsjóðum HÍ hefur Helga Brá Árnadóttir verkefnastjóri, netfang: sjodir@hi.is.
Reglur Háskólaráðs um stjórnun, varðvevislu og ávöxtun eigna Styrktarsjóða Háskskóla Íslands
samþykkt á fundi háskólaráðs 2. september 2021.
Reglurnar á útprentanlegu PDF skjali
1. gr.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands
Í vörslu Háskóla Íslands eru styrktarsjóðir sem að öllu jöfnu lúta sérstökum skipulagsskrám og hafa eftir atvikum sjálfstæða stjórn. Háskólaráð skipar stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands sem fer með varðveislu og ávöxtun eigna styrktarsjóða og gjafa til skólans í samræmi við skipulagsskrár eða fyrirmæli gefenda. Styrktarsjóðir í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands starfa til almannaheilla.
2. gr.
Skipun stjórnar
Háskólaráð skipar þrjá aðalmenn og einn varamann í stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands til þriggja ára í senn. Einn stjórnarmanna skal ekki vera starfsmaður Háskóla Íslands. Stjórnarmenn skulu vera fjár síns ráðandi. Háskólaráð ákveður hver gegni starfi formanns.
3. gr.
Verkefni stjórnar
Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands fer með varðveislu og ávöxtun eigna tilgreindra styrktarsjóða Háskóla Íslands fyrir hönd skólans. Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands hefur heimild til að taka við gjöfum til Háskólans og annast vörslu og ávöxtun þeirra.
Stjórn ávaxtar eignir styrktarsjóða í umsjón Styrktarsjóða Háskóla Íslands í framseljanlegum verðbréfum í samræmi við fjárfestingastefnu sem stjórnin setur og samþykkt er af háskólaráði.
Stjórn hefur umboð til að ganga frá samningum við einn eða fleiri fjárvörsluaðila um ávöxtun fjármuna styrktarsjóðanna.
Stjórn er heimilt að hlutast til um breytingu, slit eða sameiningu sjóðs hafi aðstæður breyst þannig að markmiðum sjóðsins verði ekki náð eða stjórn ekki verið skipuð samkvæmt ákvæðum skipulagsskrár, í samræmi við óskir stofnenda og/eða stjórn viðkomandi sjóðs, ef unnt er.
Stjórn er heimilt að hlutast til um stofnun sjóða og gjafir sem gefnar eru Háskólanum.
Stjórn skal árlega yfirfara fjárfestingastefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og gera tillögur til háskólaráðs um breytingar, telji hún tilefni til þess.
Stjórn skal árlega gefa háskólaráði skýrslu um stöðu styrktarsjóðanna og styrkveitingar úr þeim. Á vef Háskóla Íslands skal birta yfirlit yfir sjóði sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og skipulagskrá þeirra, fjárfestingastefnu, sameiginlegan ársreikning og úthlutanir.
4. gr.
Störf stjórnar
Stjórnarformaður boðar til stjórnarfunda og stýrir fundum. Stjórnarformaður getur falið umsjónaraðila Styrktarsjóða Háskóla Íslands að boða til stjórnarfunda í sínu umboði. Fundi skal einnig halda að ósk einstakra stjórnarmanna. Afl atkvæða ræður ákvörðun. Færa skal í fundargerðabók þær ákvarðanir sem teknar eru og annað markvert sem gerist á stjórnarfundum. Fundargerðir stjórnar eru ekki birtar.
5. gr.
Daglegur rekstur
Með stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands starfar umsjónaraðili sem annast daglegan rekstur Styrktarsjóða Háskóla Íslands og vinnur með styrktarsjóðum í umboði stjórnar ásamt fjármálastjóra Háskóla Íslands. Laun umsjónaraðila og stjórnar skulu greidd sameiginlega af Styrktarsjóðum Háskólans sem heyra undir þessar reglur. Fjármálastjóri Háskóla Íslands fer með prókúru Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Stjórn hvers styrktarsjóðs annast úthlutun úr viðkomandi sjóði í samræmi við skipulagskrá og í samstarfi við umsjónaraðila Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
6. gr.
Ársreikningar og endurskoðun
Bókhald sjóðanna er sjálfstætt og lýtur endurskoðun löggilts endurskoðanda. Reikningsár sjóðanna er almanaksárið. Háskólaráð skal tilnefna endurskoðanda sem endurskoðar reikninga styrktarsjóða í umsjón Styrktarsjóða Háskóla Íslands árlega. Senda skal Ríkisendurskoðun sameiginlega ársreikning Styrktarsjóða Háskóla Íslands ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðanna hefur verið ráðstafað eigi síðar en 30. júní ár hvert.
7. gr.
Gildistökuákvæði
Reglur þessar taka þegar gildi. Við gildistöku reglna þessara falla úr gildi fyrri reglur um stjórnun, varðveislu og ávöxtun eigna Styrktarsjóða Háskóla Íslands sem samþykktar voru á fundi háskólaráðs 26. júní 2002.
Hver sjóður hefur ákveðinn tilgang eða markmið og eru úthlutanir úr sjóðunum í fullu samræmi við markmið viðkomandi sjóðs. Markmið sjóðanna og/eða tilgangur þeirra kemur fram í skipulagsskrá sjóðsins. Þar kemur einnig fram hvernig og hvenær má úthluta úr sjóðunum.
Mögulegir styrkir úr sjóðunum eru auglýstir á vettvangi sem ætla má að nái augum og eyrum sem flestra hugsanlegra umsækjenda. Berist umsókn án auglýsingar er hún metin með tilliti til efnis, reglna og fjárhagsstöðu sjóðsins. Flestir sjóðirnir hafa sjóðsstjórn sem fer með málefni hvers sjóðs fyrir sig.
Nánari upplýsingar veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnastjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is.
Markmið Styrktarsjóða Háskólan Íslands er að ávaxta fjármuni styrktarsjóðanna á hagkvæman hátt og tryggja þeim bestu ávöxtun. Fjárfestingastefna safnsins tekur mið af eðli sjóðanna sem langtímafjárfestis með mjög hóflegum útgreiðslum.
Fjárfestingarstefna Styrktarsjóða Háskóla Íslands var fyrst sett af stjórn sjóðanna í október 2002. Breytingar voru gerðar á henni 25. janúar 2005, leiðréttingar í apríl 2006. Í janúar 2008 voru breytingar gerðar á binditíma skuldabréfa og bætt við ákvæði um gengisvarnir. Í lok árs 2009 var fjárfestingastefnan endurmetin í samræmi við stöðu á fjármálamörkuðum eftir bankahrun. Breytingarnar áttu sér stað í janúar 2010.
Fjárfestingastefna Styrktastjóða HÍ (PDF).
Umsjónarmaður Styrktarsjóða Háskóla Íslands hefur annars vegar umsjón með fjárvörslu og umsýslu fjármagns sjóðanna, bókhaldi, endurskoðun og samskiptum við fjárvörsluaðila. Hins vegar sér hann um samskipti við stjórnir og forsvarsmenn sjóða Háskóla Íslands ásamt markaðs- og kynningarmálum.
Umsjónarmaður Styrktarsjóðanna sér um samskipti við fjárvörsluaðila og stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Umsjónarmaður fundar með fulltrúum fjárvörsluaðila styrktarsjóðanna ársfjórðungslega og miðlar upplýsingum um ávöxtun til stjórnar. Jafnframt sér umsjónarmaður um að boða til stjórnarfunda að lágmarki þrisvar til fjórum sinnum á ári og oftar ef nauðsyn krefur.
Fjárvörsluaðilar mæta á fund stjórnar í upphafi hvers árs og gera grein fyrir ávöxtun líðandi árs.
Umsjónarmaður Styrktarsjóðanna heldur einnig utan um bókhaldsgögn vegna styrktarsjóðanna og sér um að koma þeim til endurskoðenda sjóðanna sem sjá um ársreikninga og reikningsskil sjóðanna. Þá sér umsjónarmaður sjóðanna um að koma ársreikningum í prentun og dreifingu til stjórnarmanna ásamt birtingu í Árbók Háskóla Íslands og ritun skýrslu stjórnar.
Ársreikninga fyrri ára má nálgast hjá sjodir@hi.is.



Viltu styrkja?
Styrktarsjóðir eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.