Frá úthlutun.

Þann 19. febrúar árið 2008 var úthlutað í fjórða sinn úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala.

Bergþóra Sigríður Snorradóttir, Fífa Konráðsdóttir, Phatsawee Jansook og Skúli Skúlason, doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala. Þetta er í fjórða sinn sem sjóðurinn veitti doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði. Heildarupphæð styrks er 1.400.000 krónur og hlýtur hver styrkhafi kr. 350.000.
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Hefur sjóðurinn stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.

Rannsóknarverkefni Bergþóru Sigríðar Snorradóttur gekk út á að rannsaka eiginleika sílíkonforðakerfa og þróa forðakerfi fyrir gjöf á lyfjum og öðrum lífvirkum efnum í gegnum húð. Bergþóra lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hóf doktorsnám sama ár undir leiðsögn Más Mássonar prófessors.
Rannsóknarverkefni Fífu Konráðsdóttur felur í sér þróun augndropa og burðarefna fyrir lyf sem innihalda fitusýrur sem einangraðar eru úr fiskalýsi. Fífa lauk BS-prófi í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MS-prófi í lyfjavísindum frá Lyfjafræðideild árið 2006. Hún hóf doktorsnám sama ár undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.

Rannsóknarverkefni Phatsawees Jansook fjallar um þróun á nanótækni til lyfjagjafar í auga með það fyrir augum að auka flæði lyfja inn í bakhluta augans sem og mynda lyfjaforða í auga þannig að fækka megi tíðni lyfjagjafa. Jansook lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Silpakorn-háskóla í Taílandi árið 1997 og MS-prófi í lyfjafræði frá Chulalongkorn-háskóla í Bangkok í Taílandi árið 2006. Hann hóf doktorsnám árið 2007 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.

Markmið rannsóknaverkefnis Skúla Skúlasonar er að bæta lyfjagjöf á slímhúð og þróa lyfjaform sem ná góðri slímhimnuviðloðun og gefa möguleika á að stjórna losun lyfs frá því. Skúli lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Hann hóf doktorsnám árið 2007 undir leiðsögn Þórdísar Kristmundsdóttur prófessors.
Verðlaunahafarnir hafa allir birt vísindagreinar um rannsóknarverkefni sín og kynnt þau með erindum og veggspjöldum á vísindaráðstefnum hérlendis og erlendis.

 

Um styrktarsjóðinn

Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem veitir verðlaun fyrir ýmis störf á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem styður rannsóknir á einelti.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

 
Frá styrkveitingu. Mynd: Kristinn Ingvarsson