Fólk skoðar sýninguna Listmílu í Háskóla Íslands

Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands

Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á íslenskri myndlist, myndlistarsögu, forvörslu myndverka og birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna.

Fólk skoðar sýninguna Listmílu í Háskóla Íslands

Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands

Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á íslenskri myndlist, myndlistarsögu, forvörslu myndverka og birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna.

Listasafns Háskóla Íslands gegnir skyldum við þá sem stunda rannsóknir á íslenskri myndlistarsögu. Eitt af hlutverkum listasafnsins er að stuðla að rannsóknum á íslenskri listasögu, jafnt innan sem utan háskólasamfélagsins.

Árið 1999 var stofnaður Rannsóknarsjóður við Listasafn HÍ , nefndur Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands,  sem ætlað er, líkt og segir í stofnskrá sjóðsins, að styrkja rannsóknir "á sviði íslenskrar myndlistar, myndlistarsögu og forvörslu myndverka að fornu og nýju, svo og til birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins."

Árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins eru raunvextir af stofnfé og veitir sjóðsstjórnin styrki til "faglegra hæfra einstaklinga eða stofnana að fengnum umsóknum og undangenginni almennri auglýsingu". Sjóðinn stofnaði Sverrir Sigurðsson á 90 ára afmæli sínu, 10. júní 1999 með veglegu stofnframlagi.

Sjóðurinn, stjórn og umsóknir

Veitt var í fyrsta skipti úr styrktarsjóðnum árið 2000 og fyrstu þrjú árin þe. 2000, 2001 og 2002 var veitt úr sjóðnum árlega.  Styrkupphæðir hafa verið á bilinu krónur 150.000-700.000.

 

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.

Stjórn Listasafns Háskólans skipar jafnframt stjórn sjóðsins. Í stjórninni sitja:

  • Æsas Sigurjónsdóttir formaður
  • Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu
  • Anrdís Vilhjálmsdóttir, f.h. gefenda safneignar

 

Staðfest skipulagsskrá Styrktarsjóðs Listasafns Háskóla Íslands (PDF).

 

Auglýsing um umsóknartímabil er sett á vef sjóða og á vef Háskóla Íslands. Einungis er opið fyrir umsóknir á auglýstum umsóknartíma.

Styrkhafar

2013

  • Birta Guðjónsdóttir
  • Jóhannes Dagsson

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2013. 

2011

  • Arndís S. Árnadóttir 
  • Jón B. K. Ransu 

Sjá umfjöllun um styrkhafa 2011. 

2008

  • Margrét Elísabet Ólafsdóttir fagurfræðingur fær styrk til rannsókna á íslenskri vídeólist og útgáfu á niðurstöðum rannsókna.

2005

  • Hrafnhildur Schram listfræðingur fær styrk til  dvalar í Danmörku til að rannsaka frumheimildir og taka viðtöl vegna bókar um listakonuna Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966).
  • Viktor Smári Sæmundsson forvörður  fær styrk til að stunda rannsóknir á nafnskriftum (höfundarmerkingum) frumherja íslenskrar myndlistar, einkum þeim Sigurði málara Guðmundssyni, Þórarni B. Þorlákssyni, Ásgrími Jónssyni, Jóhannesi S. Kjarval, Guðmundi Thorsteinssyni, Jóni Stefánssyni og Júlíönu Sveinsdóttur.

2004

  • Ólafur Gíslason listfræðingur fær styrk til  rannsókna á landslagi og rými í verkum Sigurðar Guðmundssonar  í samhengi við heimspekikenningar Martins Heidegger, Maurice Merleu-Ponty og Jean-Luc Nancy.
  • Margrét Elísabet Ólafsdóttir fagurfræðingur fær styrk til rannsókna og útgáfu rannsókna á íslenskri raflist, s.s. skjálist, netlist og hljóðlist.
  • Davíð Ólafsson sagnfræðingur styrk til að til útgáfu á sögu Myndlista-og handíðaskóla Íslands.

2002

  • Nathalie Jacqueminet listfræðingur og forvörður fær styrk til hönnunar gagnagrunns til skráningar á listaverkum sem eru ekki í eigu safna.
  • Kristín Guðnadóttir listfræðingur fær styrk til að rannsaka Kaupmannahafnarár Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals, þ.e. tímabilið 1912-1922 með það fyrir augum að kanna tengsl Kjarvals við danska og evrópska samtímalist og skilgreina áhrif einstakra listamanna og stílgerða á þróun Kjarvals.
  • Markús Þór Andrésson myndlistarmaður fær styrk til undirbúnings vinnslu heimildarefnis fyrir sjónvarp um íslenska samtímamyndlist.

2001

  • Félagið Íslensk Grafík fær styrk til að hefja skráningu á sögu Grafíkfélagsins með það fyrir augum að koma henni á prent.
  • Ólafur J. Engilbertsson fær styrk til að vinna að útgáfu rits um Leikmyndlist á Íslandi.
  • Níels Hafstein fær styrk fyrir hönd Safnasafnsins á Svalbarðsströnd til að vinna að textum til útgáfu um íslenska alþýðumyndhöggvara.

2000

  • Ólafur Ingi Ólafsson málverkaforvörður hlýtur styrk fyrir rannsóknir sínar á fölsuðum málverkum og fyrir að eiga mikilvægan þátt í koma í veg fyrir sölu og áframhaldandi falsanir á málverkum, bæði hér heima og í Danmörku.

    Með rannsóknarvinnu sinni taldi stjórn sjóðsins að Ólafur Ingi hefði unnið ómetanlegt starf í þágu íslenskra myndlistarmanna.
    Rannsóknirnar ná aftur til ársins 1996 en þá hóf Ólafur Ingi að eigin frumkvæði rannsóknir íslenskum málverkum sem grunur lék á að gætu verið fölsuð. Rannsóknirnar felast m.a. í ítarlegum heildarrannsóknum á verkunum sjálfum, s.s. smásjárrannsóknum, rannsóknum undir útfjólubláu ljósi, ásamt nákvæmum samanburði á hinum ýmsu þáttum málverkanna við önnur verk. Þá eru gerðar rannsóknir á sýnum, m.a. bindiefnagreining og kallaðir hafa verið til sérfræðingar í ýmsum efnum, bæði erlendir og innlendir, meðal annars frá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

    Fölsunarmálið á sér ekki fordæmi hér á landi hvað umfang snertir, en með rannsóknarvinnu sinni taldi stjórn Styrktarsjóðs Listasafns Háskólans Ólaf Inga Jónsson hafa gert hvort tveggja, að koma í veg fyrir aðslíkir hlutir endurtaki sig í náinni framtíð hér á landi og að votta látnum myndlistarmönnum, - flestum af brautryðjendakynslóðinni -  sem eignuð hafa verið fölsuð verk, virðingu sína og annarra.

Fréttir af sjóðnum

Ragnheiður Árnadóttir, móðir Birtu Guðjónsdóttur styrkhafa, og Jóhannes Dagsson styrkhafi.
Frá afhendingu styrkja úr Styrktarsjóði Listasafns Háskóla Íslands

Viltu styrkja?

Styrktarsjóðir eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Deila