Markmiðið sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir og nám í menntunar- og kennslufræðum. Styrkja á kennara og sérfræðinga í þessum fræðum. Jafnframt má veita nemendum styrki til skiptináms. Megintilgangur sjóðsins er að efla sérfræðiþekkingu í menntunar- og kennslufræðum með fjárstyrkjum til:
- Rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu.
- Þróunarverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu.
- Skiptináms í menntunar- og kennslufræðum við erlenda háskóla
Sjóðurinn heitir nú Sjóður Steingríms Arasonar. Sjóðurinn hét áður Columbiasjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939.
Samkvæmt nýrri skipulagsskrá fer stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands með stjórn sjóðsins.
Steingrímur Arason (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalkennslustörf hans voru við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. Steingrímur kynntist hugmyndum John Dewey í Bandaríkjunum og kynnti þær kennurum og kennaraefnum. Steingrímur sinnti mannúðar og félagsmálum og lét auk þess flest sem tengdist mennta og uppeldismálum sig varða. Hann beitti sér fyrir nýjungum í námsefnisgerð, kennsluháttum og námsmati. Hann lagði áherslu á frjálslegar kennsluaðferðir þar sem leikurinn var í hávegum. Steingrímur var brautryðjandi í menntun ungra barna og var í forystusveit þegar fyrstu leikskólarnir á Íslandi voru settir á fót. Hann var stofnandi Barnavinafélagsins Sumargjöf og formaður þess fyrstu 15 árin. Auk handbóka um kennslu ritaði Steingrímur fjölda greina og flutti ávörp um uppeldi og kennslu.