Háskóli Íslands

Sagnfræðisjóður dr. Björns Þorsteinssonar

Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta við nám undir kandídatspróf í sagnfræði og kandídata í sömu grein til að rannsaka og vinna að ritum um sérstök efni, er varða sögu Íslands eða efni því nátengt. Veita má manni styrk til sams konar verkefna, er eigi hefur verið í Háskóla Íslands, og er sérstakar ástæður mæla með því að mati stjórnar og öll stjórnin er sammála þar um.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1986 af Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju dr. Björns Þorsteinssonar, og dóttur þeirra, Valgerði Björnsdóttur.

Björn Þorsteinsson fæddist 20. mars 1918 og lést 6. október 1986. Hann starfaði við kennslu í gagnfræða- og menntaskólum og í Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um Íslandssögu sem allar eiga það sammerkt að vera vekjandi og glæsilega skrifaðar. Meðal verka Björns má nefna: Íslenzka þjóðveldið (1953), Íslenzka skattlandið (1956), Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups (1965), Ný Íslandssaga (1966), Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld (1969), Enska öldin í sögu Íslands (doktorsritgerð 1970), Tíu þorskastríð 1415-1976 (1976), Íslenzk miðaldasaga (1978), Á fornum slóðum og nýjum (ritgerðasafn 1978) og Island (1985). Auk þess liggja eftir Björn útgáfur á verkum annarra, Íslendingasögum og ljóðum. Þá hafði hann forgöngu um útgáfu heimildasafna og gaf m.a. út eitt bindi af Íslenzku fornbréfasafni (XVI 1952-59). Björn var forseti Sögufélagsins og ritstjóri tímarits þess, Sögu, um margra ára skeið. Einnig hafði hann forystu um stofnun annarra félaga og naut sín hvað best sem brautryðjandi og leiðtogi á meðal samstarfsmanna.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og skulu þeir útnefndir af eftirgreindum aðilum, einn af hverjum: Stjórn Sagnfræðistofnunar Heimspekideildar H.Í., stjórn Sögufélagins og Háskólaráði. Frá breyttu skipulagi Háskóla Íslands árið 2008 heitir Heimspekideild nú Sagnfræði- og heimspekideild og heyrir undir Hugvísindasvið.
 
Í stjórn sjóðsins sitja:

Staðfest skipulagsskrá (.pdf).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is