Styrkþegar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Þórarni Guðjónssyni, forseta Læknadeildar

Hlynur Breki Harðarson, Jóhanna Vigdís Guðjónsdóttir, Kolbrún Sara Haraldsdóttir og Ýr Ý Nhu Tran, þriðja árs nemar í læknisfræði við Háskóla Íslands, hafa hlotið styrk úr Menntasjóði Læknadeildar. Styrkirnir eru veittir vegna vinnu að BS-rannsóknarverkefnum og til rannsóknarskiptináms við erlenda háskóla. Heildarstyrkupphæð nemur 1.750.000 krónum. 

Rannsóknarverkefni Hlyns Breka Harðarsonar bera heitin „Talþjálfun einhverfra barna með skerta talgetu og mállegt verkstol“  og „Hljóðræn úrvinnsla hjá einhverfum“. Verkefnin verða unnin í sumar í samvinnu við SPAN rannsóknarteymið á Massachusetts General Hospital, aðalkennslusjúkrahúsi Harvard Medical School. Yfir rannsóknarteyminu er Karen Chenausky. Verkefnin snúa bæði að greiningu og meðferð mállegs verkstols hjá börnum (e. childhood apraxia of speech, CAS) á einhverfurófi  sem hafa skerta talgetu. Markmið fyrra verkefnisins er að kanna hvort sérsniðin meðferð við mállegu verkstoli, sem er aðlöguð þörfum barna með einhverfu og skerta talgetu og framkvæmd í leikrænu samhengi, geti bætt nákvæmni hreyfinga og skiljanleika þeirra í tali. Síðara verkefnið miðar að því að bera saman talskynjun barna með einhverfu, með og án skertrar talgetu, jafnframt því að kanna tengsl milli talskynjunar og hæfni til framburðar málhljóða og tjáningar. Leiðbeinandi Hlyns Breka er Karen Chenausky.

Rannsóknarverkefni Jóhönnu Vigdísar Guðjónsdóttur ber heitið „Greiningarhæfni og forspárgildi mismunandi mæliaðferða á fríum léttum keðjum í sermi“. Fríar léttar keðjur í sermi eru mikilvægur lífefnavísir þegar kemur að greiningu og eftirfylgni plasmafrumusjúkdóma á borð við góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) og mergæxli. Mismunandi aðferðir eru í notkun til að mæla þessar fríu keðjur en þekking á samanburði þeirra er takmörkuð. Gerður var samanburður á tveimur mæliaðferðum, Freelite og N-Latex, til að meta greiningarhæfni og forspárgildi hvorrar fyrir sig. Gögnin voru fengin úr dönskum gagnagrunni sem heldur utan um alla fullorðna sem hafa greinst með eitilfrumusjúkdóm í Danmörku frá árinu 2002. Niðurstöðurnar sýndu að báðar aðferðir greina vel áhættu á þróun í illkynja sjúkdóm en þó reyndist Freelite hafa örlítið hærra spágildi. Þessar niðurstöður styðja notkun beggja aðferða í klínísku starfi en undirstrika mikilvægi frekari rannsókna á þessu efni. Verkefni var unnið á Ríkisspítalanum í Danmörku og Kræftens Bekæmpelse, í  samstarfi við verkefnið Blóðskimun til bjargar (iStopMM) hér á landi. Leiðbeinendur Jóhönnu Vigdísar eru læknarnir Sigrún Þorsteinsdóttir, Sæmundur Rögnvaldsson, Lærke Sloth Andersen og Marína Rós Levy.

Rannsóknarverkefni Kolbrúnar Söru Haraldsdóttur ber heitið ,,Greining og einkenni fitubjúgs hjá konum á Heilsubrú HH‘‘ og er fyrsta formlega rannsóknin á fitubjúg á Íslandi. Fitubjúgur er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af óhlutfallslegri fitusöfnun á fótleggjum og stundum handleggjum kvenna ásamt verkjum í umræddum fituvef. Í rannsókninni var rýnt í greiningu og einkenni fitubjúgs meðal þeirra 190 kvenna sem sóttu einstaklingsviðtal hjá Heilsubrú HH vegna gruns um sjúkdóminn á tímabilinu nóvember 2022 til maí 2024. Hluti verkefnisins var samanburður á greiningarviðmiðum sem notuð eru hérlendis við þau sem þróuð hafa verið af þverfaglegu teymi á Haraldsplass-sjúkrahúsinu í Bergen. Sá samanburður var gerður með það að markmiði að bæta greiningu og meðferðir hér á landi og stuðla þannig að betri líðan og heilsufarslegum ávinningi kvenna með fitubjúg á Íslandi. Leiðbeinendur voru Erla Gerður Sveinsdóttir, sérfræðilæknir á Heilsubrú HH, og Hildur Skúladóttir, sérfræðilæknir á Haraldsplass-sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi. 

Rannsóknarverkefni Ýrar Ý Nhu Tran ber heitið „Djúpnám notað við flokkun á brjóstakrabbameinsvef“. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Á Íslandi greinast árlega að meðaltali 266 íslenskar konur með meinið og um 50 deyja af völdum þess. Þegar kemur að meðferðarvali er gott að vita t.d. hvort homologous recombination deficiency (HRD), BRCA2 999del5 og TP53 stökkbreytingar séu til staðar og hvaða undirtegundir brjóstakrabbameins (LumA, LumB, HER2, þríneikvætt) er um að ræða. Framfarir í gervigreind, sérstaklega djúpnámi, hafa nýst við flokkun á ýmsum krabbameinsvefjasneiðum, þ. á m. brjóstakrabbameins og skilað góðum árangri. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort hægt sé að nota djúpnám til að spá fyrir um HRD, BRCA2 999del5 og TP53-stökkbreytingar í brjóstakrabbameinsvef og hvort hægt sé að flokka brjóstakrabbamein í undirtegundir. Verkefnið var unnið að hluta til við IDIBELL/ICO í Barcelona. Leiðbeinendur Ýrar voru Sigríður Klara Böðvarsdóttir, Miquel Angel Pujana, Jón Gunnlaugur Jónasson, Stefán Þ. Sigurðsson, Victor Raul Moreno Aguado og Roderic Espín. 

Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður árið 2019  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Sjóðurinn grundvallast á safni sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar.

Styrkþegar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Þórarni Guðjónssyni, forseta Læknadeildar
Styrkþegar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Þórarni Guðjónssyni, forseta Læknadeildar. MYND/Kristinn Ingvarsson