Háskóli Íslands

Um Styrktarsjóði HÍ

 

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands. Í vörslu Styrktarsjóðanna eru um fimmtíu sjóðir og gjafir, sem borist hafa Háskólanum allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa eftir staðfestri skipulagsskrá sem ætlar þeim að úthluta styrkjum til ýmissa verkefna nemenda, kennara og vísindamanna.

Hver sjóður hefur ákveðinn tilgang eða markmið og eru úthlutanir úr sjóðunum í fullu samræmi við markmið viðkomandi sjóðs. Markmið sjóðanna og/eða tilgangur þeirra kemur fram í skipulagsskrá sjóðsins. Þar kemur einnig fram hvernig og hvenær má úthluta úr sjóðunum.

Mögulegir styrkir úr sjóðunum eru auglýstir á vettvangi sem ætla má að nái augum og eyrum sem flestra hugsanlegra umsækjenda. Berist umsókn án auglýsingar er hún metin með tilliti til efnis, reglna og fjárhagsstöðu sjóðsins. Flestir sjóðirnir hafa sjóðsstjórn sem fer með málefni hvers sjóðs fyrir sig.

Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands er skipuð af háskólaráði og hefur hún eftirlitshlutverk með fjárvörslu sjóðanna. Stjórnin er skipuð þremur mönnum til þriggja ára í senn. Stjórnina skipa Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og formaður stjórnar, Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur og verkefnisstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði og Jóhann Ómarsson, viðskiptafræðingur og ráðgjafi. Sigurður Jóhannesson, aðjúnkt í alþjóðahagfræði, er varamaður í stjórn.

Nánari upplýsingar veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnastjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is