Háskóli Íslands

Ferðastyrkir doktorsnema

ferðir

Stjórn Rannsóknasjóðs auglýsir ferðastyrki fyrir doktorsnema við Háskóla Íslands. Styrkjunum er ætlað að aðstoða doktorsnema við að standa straum af kostnaði við ráðstefnuferðir erlendis á almanaksárinu 2021. Faglegt framlag á ráðstefnu er meginforsenda fyrir styrkveitingu. Þó er einnig hægt að sækja um styrk fyrir námskeiði eða sumarskóla erlendis á sama almanaksári. Þátttaka í ráðstefnu gengur þó að jafnaði fyrir við forgangsröðun og úthlutun styrkja.

Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur haft áhrif á alþjóðlegt ráðstefnuhald, rétt eins og aðrir viðburði og samkomur síðasta ár og mun hafa áhrif á ráðstefnuhald næstu misseri. Mörgum ráðstefnumhefur þegar verið frestað og sumum jafnvel aflýst. Þó er ljóst að margir ráðstefnuhaldarar með dagsetta viðburði hafa í hyggju að halda sínu striki þar til annað kemur í ljós og hafa jafnvel fært viðburði yfir á netið.

Doktorsnemar eru því hvattir til þess að sækja um styrk fyrir þeim ráðstefnum sem þeir hafa ýmist þegar tekið þátt í á almanaksárinu; vegna ráðstefna þar sem enn er opið fyrir umsóknir um faglegt framlag eða annarra viðburða sem eftir á að auglýsa formlega með ráðstefnukalli.

ÁRLEGRI skráningu hjá Nemendaskrá fyrir háskólaárið 2021-2022 þarf að vera lokið svo umsókn teljist gjaldgeng í sjóðinn.

Gert er ráð fyrir því að umsækjandi, sem sækir um vegna ráðstefnu, sýni fram á að hann hafi fengið samþykkt framlag á viðkomandi ráðstefnu ásamt útdrætti eða erindi. Umsækjandi, sem sækir um vegna námskeiðs eða sumarskóla, sýni fram á samþykkta skráningu ásamt stuttum rökstuðningi fyrir því hvernig sú þátttaka gagnast doktorsnámi viðkomandi (að hámarki 200 orð).

Ef dagskrá ráðstefnu er ekki tilbúin, eða samþykkt framlags hefur ekki borist, skal veita sem bestar upplýsingar um form og inntak ráðstefnunnar í umsókn. Í slíkum tilfellum er hægt að veita skilyrtan styrk gegn því að fullnuma upplýsingar og/eða staðfesting á framlagi stúdents berist Vísinda- og nýsköpunarsviði við allra fyrsta tækifæri, eða áður en styrkurinn er greiddur út. Stúdentar sem hafa þegar tekið þátt í ráðstefnu fyrir auglýst umsóknartímabil eða á meðan því stendur skulu senda umbeðin gögn með umsókn. Afgreiðsla styrks er háð því að útdráttur (eða önnur staðfesting á framlagi stúdents) hafi verið samþykktur á ráðstefnu. Hið sama gildir um þá umsækjendur sem sækja um vegna námskeiða eða sumarskóla erlendis hvað upplýsingar um skráningu varðar.

Upphæð styrks er 100.000 kr fyrir árið 2021.

Umsóknarfrestur er til og með 3. maí 2021.

Nánari upplýsingar hjá vísinda- og nýsköpunarsviði

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is