
Clara Brusq, doktorsnemi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, og Maria Finster Úlfsson, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri, hafa hlotið styrki úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur við Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrkja nemur 4 milljónum króna.
Doktorsverkefni Clöru Brusq við Háskóla Íslands ber titilinn: „Fræðsla um verkjameðferð eftir skurðaðgerð, hvað virkar?“ Markmið verkefnisins eru þríþætt: að greina árangursríkar leiðir til fræðslu sjúklinga, að prófa áreiðanleika og réttmæti spurningalista sem metur þekkingu sjúklinga á verkjameðferð eftir skurðaðgerð og að bera saman mismunandi fræðsluaðferðir fyrir sjúklinga í klínísku umhverfi. Fyrsti hluti rannsóknarinnar er kerfisbundin samantekt á fræðsluinngripum fyrir sjúklinga með verki eftir skurðaðgerð, þar sem skoðað verður innihald fræðslu, tímasetning og kennsluaðferðir. Í kjölfarið verða próffræðilegir eiginleikar spurningalista, sem ætlað er að meta þekkingu sjúklinga á verkjameðferð eftir skurðaðgerð, kannaðir. Spurningalistinn verður lagður fyrir um það bil 400 sjúklinga eftir aðgerð. Í þriðja hluta verður árangur mismunandi fræðsluaðferða sem veittar eru fyrir aðgerð (tölvuleikur, staðlaðar bæklingar, viðtöl) kannaður í hálf-staðlaðri tilraun.
Fræðsla um verkjameðferð eftir skurðaðgerð er ráðlögð í öllum klínískum leiðbeiningum en þrátt fyrir það eru fáar rannsóknir sem sýna fram á áhrif fræðslu á verki sjúklinga. Þá er skortur á mælitækjum til að meta þekkingu sjúklinga á verkjameðferð eftir skurðaðgerð. Rannsóknin mun bæta við þekkingu á sviði fræðslu til sjúklinga um verkjameðferð eftir skurðaðgerð auk þess sem lokið verður við að þróa og prófa nýtt mælitæki sem metur þekkingu sjúklinga á verkjameðferð.
Leiðbeinendur Clöru eru Sigríður Zoëga, dósent við Háskóla Íslands og deildarstjóri verkjamiðstöðvar Landspítala, og Brynja Ingadóttir, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hjúkrun á menntadeild Landspítala. Í doktorsnefndinni sitja einnig Sigríður Gunnarsdóttir, Esther Pogatzki-Zahn og Rianne van Boekel.
Doktorsverkefni Maríu Finster Úlfarsson við Háskólann á Akureyri ber titilinn „Þátttaka, stuðnings- og fræðsluþarfir fullorðinna barna við umönnun mæðra á hjúkrunarheimilum“. Fullorðin börn, ásamt mökum, gegna lykilhlutverki í lífi íbúa á hjúkrunarheimilum. Þó bæði dætur og synir taki þátt í umönnun virðast þarfir þeirra oft vera mismunandi og stuðningur frá heilbrigðisstarfsfólki getur verið af skornum skammti. Meginmarkmið doktorsverkefnisins er að kanna hvort kynjamunur komi fram í þátttöku fullorðinna barna í umönnun mæðra sinna á hjúkrunarheimilum og greina þarfir þeirra fyrir fræðslu og stuðning.
Verkefnið felur í sér þrjár rannsóknir: eigindlega rannsókn á reynslu sona af því að eiga móður á hjúkrunarheimili og hvernig þeir skilgreina þarfir sínar fyrir fræðslu og stuðning; þýðingu og staðfæringu matstækis sem metur þátttöku aðstandenda í umönnun ástvina á hjúkrunarheimili en tækið hefur hingað til skort á Íslandi; og þversniðsrannsókn þar sem þátttaka sona og dætra í umönnun mæðra er metin ásamt þörfum þeirra fyrir fræðslu og stuðning. Engin megindleg rannsókn hefur áður verið gerð um þetta efni hér á landi og þekking á kynjamun í þátttöku aðstandenda íbúa á hjúkrunarheimilum er almennt takmörkuð.
Leiðbeinendur Maríu eru Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, og Margrét Hrönn Svavarsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í doktorsnefndinni sitja einnig Anne Marie Mork Rokstad frá Háskólanum í Molde í Noregi og Kristofer Årestedt frá Linneaus Háskólanum í Svíþjóð.
Í stjórn sjóðsins sitja: Jóhanna Bernharðsdóttir, fyrrverandi dósent, fulltrúi rektors og formaður stjórnar, Bragi Bjarnason, lögfræðingur og fulltrúi Ingibjargar R. Magnúsdóttur, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, prófessor og fulltrúi Ljósmæðrafélags Íslands, Auðna Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Dagmar Huld Matthíasdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Um Rannsóknarsjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur var stofnaður árið 2007. Sjóðurinn eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, var námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla